Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Björgvin Páll: Hrikalega langur og erfiður leikur

Mynd: EPA-EFE / KEYSTONE

Björgvin Páll: Hrikalega langur og erfiður leikur

20.01.2021 - 16:47
„Þetta var hrikalega langur og erfiður leikur fyrir okkur,“ segir Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska karlalandsliðsins í handbolta, eftir tapið gegn Sviss. Sviss vann með tveimur mörkum 20-18 og fer með því upp fyrir Ísland í milliriðli þrjú.

„Við þurftum að hafa rosa mikið fyrir öllum mörkunum okkar. Spilum frábæra vörn í 60 mínútur, alveg bara yndislega. Að halda þessum leikmönnum í 20 mörkum er frábært,“ segir Björgvin.

„En að sama skapi þá náum við ekki að nýta okkur sóknarlega þeirra veikleika og þegar við gerum það þá er markmaðurinn þeirra bara frábær. Það er sorglegt að tapa svona leik þegar við áttum alla möguleika á sigri.“

Á hverju er þetta að stranda sóknarlega?
„Þetta eru rosa margir þættir. Þegar við sköpum okkur færi erum við oft að klúðra þeim. Það er líka hluti af öllum pakkanum, þetta er klókt varnarlið, þeir eru að spila frábæra vörn að mörgu leyti. Þeir þvinga okkur í þá stöðu sem þeir vilja, þeir eru að klára einn á einn rosalega vel og þá erum við ekkert með mikið af vopnum fyrir utan,“ segir Björgvin.

Íslenska liðið á tvo erfiða leiki framundan í milliriðlinum gegn Frakklandi og Noregi og því var leikurinn í dag þeim mun mikilvægari. „Þetta er rosalega sorglegt, og kannski best að reyna að gleyma þessu strax því við erum að fara í leik gegn Frökkum næst og ef við ætlum að pæla of lengi í þessum leik erum við að fara skíttapa því. Þannig að við ætlum að gleyma þessum leik helst bara strax og fara beint í næsta verkefni,“ segir Björgvin Páll.

Viðtalið við Björgvin í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

HM

„Þeir gáfu hjarta sitt og sál í leikinn“

Handbolti

Slakur sóknarleikur Íslands skilaði tapi gegn Sviss