Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

App fyrir þá sem bíða eftir að komast í meðferð

20.01.2021 - 18:58
Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Aðferð til að bæta samskipti SÁÁ við þá sem bíða eftir innlögn á Vog fékk Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands í dag. Verkefni, er lutu að sálareinkennum knattspyrnumanna, hreinsun skólps og heilaörvun, ásamt óróasjá fyrir jarðskjálfta og borðspili í tengslum við hugræna atferlismeðferð, fengu einnig viðurkenningu.

Nýsköpunarverðlaunin voru veitt í 26. sinn í dag, en þau eru veitt námsmönnum sem unnið hafa framúrskarandi starf við lausn verkefnis sem styrkt er af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Forseti Íslands sagði verkefnin glæsileg og það sem Íslands þyrfti væri nýsköpun og hugarorkufrekur iðnaður. Vinningsverkefnið, frá þremur nemum í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands og tölvunarfræðinemanda við Háskólann í Reykjavík, snýst um að auka og bæta samskipti og upplýsingar vegna þeirra sem bíða eftir að komast í meðferð hjá SÁÁ, alveg frá umsókn um innlögn og að innlögninni sjálfri. Þórdís Rögn Jónsdóttir er ein fjórmenninganna.

„Það er gert til að finna umbótatækifæri í kerfinu og þetta var í rauninni mikilvægasta þörfin á að bæta, samskiptin á meðan einstaklingar bíða.“

Kerfið er byggt á smáforriti eða appi sem er samskiptatól milli SÁÁ og þess sem bíður innlagnar.

„Hann fær sjálfvirk skilaboð sem henta hverjum og einum og síðan eru alls kyns önnur tól í appinu til að gera verkefni, fræðsluefni, það er hægt að taka sjálfspróf sem vísar fólki í rétt úrræði,“ segir Sunneva Sól Ívarsdóttir

Þau benda á þörfina, margir bíði eftir meðferð hjá SÁÁ og jafnvel lengi, en samskiptin á meðan séu lítil. Ari Kvaran segir mikinn áhuga á verkefni þeirra.

„Við erum að finna fyrir miklum stuðningi frá þeim og þau eru mjög spennt fyrir því að skoða þetta verkefni, þróa það með okkur og vonandi innleiða það að lokum.“

Þótt þau séu komin svona langt með verkefnið er það enn í þróun, segir Ísól Sigurðardóttir.

„Þetta er ekki tilbúið. Við þróuðum frumgerð að þessu í sumar og næsta skref er að leita að fjármagni til þess að þetta verði að veruleika. Það sem vantar núna er að fá fjármagnið til þess að láta þetta verða að veruleika.“
Þessi viðurkenning hlýtur að vekja áhuga fjárfesta?
„Ég ætla rétt að vona það.“

 
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV