Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Andri Snær fær viðurkenningu Rithöfundasjóðs RÚV

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Andri Snær fær viðurkenningu Rithöfundasjóðs RÚV

20.01.2021 - 16:20

Höfundar

Menningarviðurkenningar RÚV eru afhentar í dag. Andri Snær Magnason hlýtur viðurkenningu Rithöfundasjóðs RÚV og tilkynnt var um styrki úr Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins.

Menningarviðurkenningar RÚV fyrir árið 2020 fara fram með breyttu sniði í ár. Vegna samkomutakmarkanna fer engin eiginleg athöfn fram eins og venja er, en þess í stað greint frá viðurkenningum og viðurkenningarhöfum í Víðsjá á Rás 1 og Menningunni á RÚV.

Veitt er viðurkenning úr Rithöfundasjóði og tilkynnt um styrki úr Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins og STEFs á árinu í Víðsjá á Rás 1. Einnig veitir Rás 2 Krókinn, verðlaun fyrir framúrskarandi lifandi flutning á árinu, en tilkynnt er um handhafa hans í Menningunni á RÚV klukkan 19:50 í kvöld, þar sem val á orðum orsins verður að auki opinberað.

Andri Snær Magnason hlýtur viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf. Í rökstuðningi úthlutunarnefndar segir meðal annars:

„Viðurkenningar Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins eru fyrstu og elstu rithöfundarverðlaun okkar Íslendinga og þær eru veittar fyrir ævistarf höfundar, frekar en einstök verk. Ævistarf Andra Snæs er ef til vill ekki orðið stórt í blaðsíðum talið, en gæðin hafa verið þeim mun meiri. Trúlega hefur enginn íslenskra nútímahöfunda verið þýddur á fleiri tungumál, og öll hans stærri bókmenntaverk, hvert og eitt einasta, eru margverðlaunuð bæði hér heima og erlendis. Verða þær viðurkenningar ekki allar taldar upp hér, en sérstaklega má geta þess að Sagan af bláa hnettinum var fyrsta barnabókin til að fá íslensku bókmenntaverðlaunin og hlaut Andri Snær hin virtu Kairos lista- og menningarverðlaun fyrir Draumalandið árið 2009 – og er hann eini rithöfundurinn fram til þessa sem hefur hlotið þessa viðurkenningu.“

Andri Snær flutti af því tilefni ávarp. Þar segir hann meðal annars að tímaþjófar úti í heimi hafi krakað til sín stórum hluta af frítíma okkar en það sé verra ef mennskan og traustið hverfi samtímis úr samfélaginu. 

„Svo virðist sem það sem átti að sameina heiminn vilji sundra honum strax aftur. Það sem átti að tengja okkur við annað fólk hefur skapað meiri einangrun og kvíða en okkur óraði fyrir. Það er engu líkara en klofningurinn sé forritaður inn í algóritmana, sá sem slysast til að lesa sér um að loftslagsbreytingar séu lygi og samsæri vísindamanna, fær einungis meðmæli um að lesa fleiri slíkar síður þaðan í frá, þar nýr sannleikur verður til.

Þversögnin er sú að þessi stappfulli heimur kallar á greiningu og viðbrögð, hann kallar á bækur vegna þess að bókin getur gert það sem tæknin getur ekki gert. Engin önnur tækni er jafn góð í að setja þig í hugarheim fólks. Bókin lækar þig ekki, ertir ekki, truflar þig ekki, fylgist ekki með þér en fylgir þér samt út lífið ef hún er vel skrifuð.“

Hægt er að hlusta á ávarp Andra Snæs í heild hér:

Mynd:  / 

Alls var 121 styrkur veittur úr sameinuðum Tónskáldsjóði Ríkisútvarpsins og STEFs árið 2020.  Sjóðurinn hefur það markmið að stuðla að frumsköpun og útbreiðslu íslenskrar tónlistar. Sjóðurinn veitir höfundum fjárstuðning fyrir tónsmíði og heildstæð verk og er sérstaklega horft til fagþekkingar auk þess sem metnaðarfyllri og yfirgripsmeiri verkefni hljóta forgang.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Bókin fylgist ekki með þér en hún fylgir þér út í lífið

Bókmenntir

Hefði ekki ráðlagt sjálfum sér að verða rithöfundur