Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ágúst Ólafur tekur ekki sæti á lista Samfylkingar

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður Samfylkingar hefur ákveðið að taka ekki sæti á lista flokksins fyrir alþingiskosningar í haust. Ágúst tilkynnti þetta á Facebook-síðu sinni í dag.

Hann segir dapurlegt að meirihluti uppstillingarnefndar hafi hafnað sáttatillögu hans um að gefa eftir efsta sætið í Reykjavíkurkjördæmi suður og taka annað sætið í staðinn. 

Ágúst Ólafur náði ekki í efstu fimm sætin í skoðanakönnun sem haldin var innan flokksins um val á fólki í framboð í Reykjavík.

Ágúst Ólafur kveðst virða rétt nefndarinnar til að taka ákvörðun, hún sé þó vonbrigði en hann horfi stoltur um öxl yfir eigin feril. Hann segir Samfylkinguna hafa notið velgengni á kjörtímbilinu, og mælst stærstur stjórnmálaflokka í hans kjördæmi.

„Ég hef fundið fyrir miklum stuðningi í mínum störfum á Alþingi og ég tel mig hafa átt þátt í þeirri velgengni sem flokkurinn hefur notið,“ segir Ágúst. Jafnframt að hann hafi verið mikilvægur þingmaður og tekið virkan þátt í uppbyggingarstarfi flokksins og aðhaldshlutverki stjórnarandstöðunnar.

Ágúst Ólafur Ágústsson var fyrst kjörinn á þing 2003, var endurkjörinn 2007 og gaf svo ekki kost á sér 2009. Hann var kjörinn þingmaður að nýju í síðustu kosningum en tók sér hlé frá þingstörfum 2019. Það var til að fara í meðferð hjá SÁÁ eftir að hann varð uppvís að því að beita konu kynferðislegri áreitni.