Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vill nánari upplýsingar um fatlað fólk í LÖKE kerfinu

19.01.2021 - 20:40
Mynd: RÚV / RÚV
Aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningardeild Ríkislögreglustjóra segir að bæta þurfi úr skráningu upplýsinga í LÖKE kerfi lögreglunnar til að ná betri yfirsýn yfir ofbeldismál gagnvart fólki með fötlun.

Fötluð börn eru margfalt líklegri en ófötluð börn til að verða fyrir ofbeldi. Og slík mál eru margfalt ólíklegri til að rata inn í réttarvörslukerfið. Í nýrri norskri rannsókn kemur fram að aðeins eitt af hverjum tíu málum gegn fötluðum börnum lýkur með skilorðslausum dómi. Þetta er miklu lægra hlutfall en fyrir brot gegn ófötluðum börnum. 

Í gær gaf greiningardeild Ríkislögreglustjóra út skýrslu um stöðuna hér á landi. Ekkert í skýrslunni bendir til þess að staðan sé betri hér á landi. Rætt var við Runólf Þórhallsson aðstoðaryfirlögregluþjón í greiningardeild Ríkislögreglustjóra í Kastljósi í kvöld. 

Hann segir að eitt af því sem þurfi að bæta sé utanumhald yfir ofbeldisbrot sem eiga sér stað gagnvart fötluðum í LÖKE kerfi lögreglunar. Fram til þessa hefur lögreglu ekki verið heimilt að skrá heilsufarsupplýsingar í kerfinu. Úr þessu vill Runólfur bæta í samvinnu við Persónuvernd. Hann vill að í LÖKE  verði skráðar heilsufarsupplýsingar fólks til að ná til viðkæms hóps. 

„Það er í sjálfu sér ekki nóg. Við þurfum að gera meira. Við þurfum að fá fleiri innlendar rannsóknir á þessu sviði. Með skýrari sýn þá verðum við betri í að ná til þessa viðkvæma hóps og veita honum betri þjónustu,“ segir Runólfur. 

Hann segir þennan viðkvæma hóp vera líklegri til að verða fyrir ofbeldi, og einnig ólíklegri til að tilkynna eða segja frá ofbeldinu. Samkvæmt norsku rannsókninni eru dómar í ofbeldismálum í garð þolenda sem eru með fötlun vægari en aðrir dómar.

Í sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland er aðili að segir að stjórnvöld skuli tryggja að kerfið sé aðlagað að þörfum fatlaðra. Tekið sé tillit til sérþarfa fatlaðra þegar kemur að skýrslutöku og rannsókn mála sem varðar fatlað fólk. Runólfur segir lögregluna hafa eflt menntun lögreglumanna og samstarf við réttindagæslumenn fatlaðs fólks hafi verið eflt.

Nýtt vefsvæði, 112.is var opnað nýverið. Þar getur fólk farið í netspjall við neyðarverði og komið með ábendingar og tilkynningar um ofbeldi. Þar er einnig að finna leiðbeiningar og fræðslu.