Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sparisjóður braut lög um aðgerðir gegn peningaþvætti

Mynd með færslu
 Mynd: Google Maps
Sparisjóði Strandamanna hefur verið gert að greiða 2,5 milljónir króna í sekt vegna brota gegn ákvæðum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (Fjármálaeftirlitið) og Sparisjóður Strandamanna gerðu með sér samkomulag þann 14. janúar um að ljúka málinu með sátt eftir að sparisjóðurinn viðurkenndi að hafa gerst brotlegur gegn tilteknum ákvæðum laganna. 

Fjölmargir annmarkar

Í október 2019 gerði Fjármálaeftirlitið vettvangsathugun hjá sparisjóðnum þar sem sérstaklega var könnuð fylgni við lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og reglugerðir um áhættumat og áreiðanleikakönnun vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. 

Athugunin leiddi í ljós fjölmarga annmarka sem sneru að aðgerðum sparisjóðsins gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Raunar voru annmarkar taldir vera á flestum þeim aðgerðum sem teknar voru til skoðunar, til dæmis áhættumati, framkvæmd áreiðanleikakannana, reglubundnu eftirliti, stefnu, og verkferlum, eftirliti með því hvort viðskiptamenn væru á þvingunarlistum og eftirliti með einstaklingum í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. 

„Alvarlegustu annmarkarnir á starfsemi málsaðila, sem í ljós komu við vettvangsathugunina, sneru að framkvæmd áreiðanleikakannana, þá sérstaklega öflun upplýsinga um raunverulega eigendur lögaðila. Í 10 tilfellum af 15 sem skoðuð voru hafði ekki verið óskað eftir upplýsingum frá viðskiptamönnum um raunverulegan eiganda lögaðila og í 13 tilfellum af 15 höfðu upplýsingar um raunverulega eigendur ekki verið sannreyndar, t.d. með uppflettingu í opinberri skrá og/eða á þær lagt sjálfstætt mat. Í sjö tilfellum af 15 var málsaðili  því hvorki búinn að afla upplýsinga um raunverulegan eiganda hjá viðskiptamanni né búinn að sannreyna og/eða leggja sjálfstætt mat á eignarhald viðskiptamanna við upphaf viðskiptasambands,“ segir í samningi milli Fjármálaeftirlitsins og sparisjóðsins.

Sparisjóðurinn viðurkenndi brotin

Sparisjóðurinn viðurkenndi að hann hefði brotið gegn 5., 10., 13. 17., 30. og 33. gr. ofangreindra laga. Þá hefði hann einnig brotiðgegn 7. gr. laga um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna, með því að hafa ekki haft til staðar viðeigandi eftirlitskerfi til að meta hvort viðskiptamenn væru á lista yfir þvingunaraðgerðir. Sparisjóðnum var þó ekki gerð sekt vegna þess brots.