Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Rannsakar peningagreiðslur netníðinga til barna

19.01.2021 - 19:08
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur nú til rannsóknar fimm kynferðisbrotamál þar sem börn voru lokkuð til að senda nektarmyndir gegn peningagreiðslu. Send var út sérstök viðvörun til foreldra grunnskólabarna í dag.

 

Í bréfi sem foreldrar grunnskólabarna fengu sent frá skólayfirvöldum í dag er varað við nýrri birtingarmynd kynferðisglæpa. Borið hefur á að börn fái skilaboð frá glæpamönnum sem bjóðast til að greiða þeim pening fyrir kynferðislegar ljósmyndir. Börnin fá allt tíu þúsund krónur fyrir myndina og fara greiðslur fram í gegnum öpp eins og Aur og Kass.

Vitað er til þess að þeir sem kaupa ljósmyndirnar noti þær síðan sem kúgunartæki til að fá barnið til að senda fleiri og grófari myndir.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú þrjú til fimm mál sem tengjast glæpum af þessu tagi. Ævar Pálmi Pálmason aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá kynferðisbrotadeild segir í samtali við fréttastofu að lögreglan hafi grunsemdir um fleiri mál. Brotin beinist gegn börnum á aldrinum 12 til 15 ára.

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir verkefnastýra jafnréttismála hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkur segir að glæpamennirnir notist við ýmis spjallforrit til að ná til barnanna til dæmis Snapchat, Instagram, Tik Tok og Telegram en einnig tölvuleiki.

„Við höfum verið að fá inn á borð hjá okkur á skóla- og frístundasviði Reykjavíkur mál þar sem að fullorðnir aðilar eru að kaupa eða að bjóða ungu fólki, börnum á grunnskólaaldri, peninga fyrir kynferðislegar myndir. Og við sjáum að þetta eru ekki einstök tilvik. Þetta eru nokkur tilvik og okkar tilfinning er kannski sú að börnin átti sig ekki á hættunni sem að þessu fylgir. Þannig að við vildum kannski bara vekja foreldra til umhugsunar því við þurfum öll að hjálpast að, allt samfélagið til að vernda börnin okkar,“ segir Kolbrún.

Hún segir mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um þessa hættu og upplýsi börn sín um hana. Einnig að þeir fylgist með hvort börnin taki á móti peningum frá ókunnugu fólki.

„Við vitum það að svona myndasendingar hafa verið í gangi lengi og börn hafa oft upplifað mikinn þrýsting til þess að senda myndir bæði sín á milli en líka til fullorðinna aðila. En það að þeir séu farnir að greiða fyrir myndirnar er bara eitthvað sem er alveg glænýtt og við höfum ekki séð áður og þess vegna kannski gripum við til þessara ráða núna að benda á hættuna,“ segir Kolbrún. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV