Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ræða frumvarp um stuðning til einkarekinna fjölmiðla

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Alþingi heldur í dag áfram umræðu um frumvarp um stuðning til einkarekinna fjölmiðla. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mælti fyrir frumvarpinu í byrjun desember en í dag verður umræðunni haldið áfram og nú þegar eru á mælendaskrá Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, og Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Guðjón S. Brjánsson, þingmenn Samfylkingarinnar.

Lilja Alfreðsdóttir sagðist í síðustu viku binda vonir við að frumvarpið gerði Stöð 2 kleift að falla frá þeirri ákvörðun að fréttatímar verði hér eftir í læstri dagskrá.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkið veiti styrki sem miðast við allt að 25% af kostnaði viðkomandi fjölmiðils við öflun og miðlun frétta, fréttatengds efnis og umfjöllun um samfélagsleg málefni hér á landi. Markmiðið með frumvarpinu er að koma til móts við einkarekna fjölmiðla til að jafna stöðu íslenskra fjölmiðla gagnvart erlendum auglýsingaveitum og samfélagsmiðlum.

Stuðningur vegna launagreiðslna og verktakagreiðslna

Fjölmiðlar geta, samkvæmt frumvarpinu, aðeins fengið stuðning vegna launagreiðslna og verktakagreiðslna og stuðningurinn er háður ákveðnum skilyrðum. Til dæmis þarf miðillinn að vera skráður eða hafa leyfi til hljóð- eða myndmiðlunar og hann þarf að hafa starfað með leyfi frá fjölmiðlanefnd óslitið í 12 mánuði eða lengur. Til að fá stuðning þurfa að minnsta kosti þrír starfsmenn að starfa hjá miðlinum í fullu starfi við að afla og miðla efni, en einn starfsmaður hjá staðbundnum fjölmiðli. Þá má fyrirtækið ekki vera í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok ársins á undan, og einnig er þess krafist að laun og réttindi starfsmanna á fjölmiðli séu í samræmi við lög og kjarasamninga. 

Að óbreyttu myndi úthlutunarnefnd taka við umsóknum um stuðning fyrir 31. mars ár hvert. Fjölmiðlanefnd sæi um umsýslu umsókna og veitti úthlutunarnefnd sérfræðiaðstoð eftir nánara samkomulagi.

Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu er fjallað um þann mikla tekjusamdrátt sem einkareknir fjölmiðlar hafa staðið frammi fyrir á síðustu árum, sérstaklega í útgáfu blaða og tímarita þar sem tekjur hafa lækkað að raunvirði um 45% frá árinu 2006. Þar segir að markmið frumvarpsins sé að styðja við og efla útgáfu á fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni. Mikilvægi fréttamiðlunar óháðra og frjálsra einkarekinna fjölmiðla fyrir lýðræðislega umræðu og fjölmiðlalæsi sé óumdeilt og að með stuðningi við einkarekna miðla standi vonir til þess að frumvarpið auki fjölmiðlalæsi almennings, þekkingu á samfélagsmálum og lýðræðisvitund.

Frumvarp um RÚV næst á dagskrá

Klárist umræðan um fjölmiðlafrumvarpið um stuðning til einkarekinna fjölmiðla í dag má búast við að einnig verði rætt frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið. Þar er lagt til að RÚV verði skylt að veita upplýsingar um nöfn og starfsheiti umsækjenda um störf, þegar umsóknarfrestur er liðinn, þegar aðrar takmarkanir á upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum eiga ekki við. 

Þá verði RÚV einnig skylt að veita upplýsingar um nöfn starfsmanna og starfssvið, föst launakjör annarra starfsmanna en æðstu stjórnenda, launakjör æðstu stjórnenda, og áherslur og kröfur um árangur í starfi æðstu stjórnenda og upplýsingar um menntun þeirra. Einnig er lagt til að heimilt verði að veita upplýsingar um viðurlög í starfi sem æðstu stjórnendur hafa sætt, þar á meðal vegna áminninga og brottvísana, séu ekki liðin meira en fjögur ár frá þeirri ákvörðun sem um ræðir.

Frumvarp um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa

Þriðji dagskrárliður í dag er frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra til laga um reglubundna og viðvarandi upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu. Markmið frumvarpsins er að tryggja gagnsæi upplýsinga um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan verðbréfamarkað til að stuðla að vernd fjárfesta og skilvirkni markaðarins.

Frumvarpið felur í sér innleiðingu svokallaðrar gagnsæistilskipunarinnar í íslenskan rétt. Lagt er til að sérlög gildi um reglubundna og viðvarandi upplýsingaskyldu útgefanda verðbréfa og flöggunarskyldu og að hliðstæð ákvæði í lögum um verðbréfaviðskipti verði felld brott.