Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Maður væri rosalega til í að vera þarna með þeim“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

„Maður væri rosalega til í að vera þarna með þeim“

19.01.2021 - 20:12
„Maður er það stór partur af þessu, og fyrirliði liðsins, að maður væri rosalega til í að vera þarna með þeim auðvitað,“ segir Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handbolta, sem er ekki með Íslandi á HM vegna meiðsla í hné. Hann sé nú helsta klappstýra liðsins úr sófanum heima.

Aron meiddist rétt fyrir jól og spilaði meiddur í undanúrslitum og úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta, en var svo dæmdur úr leik af læknum Íslands fyrir HM.

„Hvort sem að ég hefði verið með á final four [úrslitum Meistaradeildarinnar] eða ekki, þá hefði þessi niðurstaða alltaf orðið útaf meiðlunum, hvernig þau eru. Þeir vilja ekki skera mig úti, þetta er sem sagt ákveðin rifa í krossbandi og hnéið á mér er mjög óstabílt þannig að ég er búinn að vera vinna markvisst í því að gera ákveðnar æfingar sem eru kannski ekki þær skemmtilegustu,“ segir Aron. Hann sé í meðhöndlun hér á Íslandi núna en fer aftur út til Spánar á sunnudaginn. „Þá verð ég myndaður og ákvörðun tekin um hvað hægt sé að gera,“ segir Aron. 

Tomas Svensson markvarðaþjálfari íslenska landsliðsins sagði í viðtali við Aftonbladet í gær að íslenskir læknar hefðu aldrei fengið að skoða Aron. HSÍ sendi hins vegar frá sér tilkynningu í gær og sagði það rangt. Eins og RÚV greindi frá fyrr í dag var um samskiptaleysi að ræða, og Aron sagði ekkert gruggugt hafa verið í gangi.

Skilur sófasérfræðingana betur 

Aron segist eiga erfitt með að horfa á liðsfélaga sína spila á HM og geta ekki hjálpað til. „Maður skilur núna þessa sófasérfræðinga og hvað þetta lítur allt auðveldlega út. En svo líka bara að maður er það stór partur af þessu, og fyrirliði liðsins, að maður væri rosalega til í að vera þarna með þeim auðvitað,“ segir hann.

Aron segir Ísland hafa staðið sig nokkuð vel hingað til á mótinu, en nú taki alvaran við. Ísland mætir Sviss í fyrsta leik í milliriðli á morgun kl. 14:30. „Ég er þeirra aðal aðdáandi í dag og helsta klappstýra og náttúrulega vona að þeir standi sig sem best,“ segir Aron.

Viðtalið við Aron má sjá í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Handbolti

„Ekkert gruggugt í gangi“

Handbolti

HSÍ: Aron fór sannarlega í læknisskoðun

Handbolti

„Var kannski viðbúinn því að svona gæti farið“