
Hundruð handtekin í Túnis um helgina
Deutsche Welle hefur eftir Mohamed Zikri, talsmanni varnarmálaráðuneytis Túnis, að hermenn séu komnir til nokkurra borga. Óeirðirnar hófust eftir að stjórnvöld tilkynntu um algjört útgöngubann á landsvísu á fimmtudag. Þann sama dag voru tíu ár liðin frá því einræðisherrann Zine El Abidine Ben Ali hrökklaðist frá völdum. Eftir læti um helgina var nokkuð rólegt um að litast í gær að sögn varnarmálaráðuneytisins.
Talsmaður innanríkisráðuneytisins segir að meðal hinna handteknu hafi verið ungmenni sem kveiktu í dekkjum og ruslagámum til þess að hindra ferðir öryggissveita. Þá hafi einhverjir grýtt lögreglu og lent í áflogi við öryggissveitir.
Fjögurra daga útgöngubanni lauk á sunnudagskvöld. Ekki er víst hvaða aðgerðir taka við í framhaldinu í baráttunni við faraldurinn. Yfir 177 þúsund hafa greinst með kórónuveiruna í landinu og yfir 5.600 eru látnir.