Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hundruð handtekin í Túnis um helgina

19.01.2021 - 03:18
epa08947330 Demonstrators clash with security forces during anti-government protests in Tunis, Tunisia, 18 January 2021. A wave of nocturnal demonstrations has rocked the country since 16 January. A wave of nocturnal demonstrations has rocked the country since 16 January.  EPA-EFE/MOHAMED MESSARA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfir 600 voru handteknir í Túnis á sunnudagskvöld, þar sem mótmæli og óeirðir hafa staðið yfir frá því á föstudag. Mótmælin eru víða um landið, þar sem fólki finnst pólitískar umbætur ekki nægar þann áratug sem liðinn er frá arabíska vorinu, auk þess sem megn óánægja er með útgöngubann vegna kórónuveirufaraldursins.

Deutsche Welle hefur eftir Mohamed Zikri, talsmanni varnarmálaráðuneytis Túnis, að hermenn séu komnir til nokkurra borga. Óeirðirnar hófust eftir að stjórnvöld tilkynntu um algjört útgöngubann á landsvísu á fimmtudag. Þann sama dag voru tíu ár liðin frá því einræðisherrann Zine El Abidine Ben Ali hrökklaðist frá völdum. Eftir læti um helgina var nokkuð rólegt um að litast í gær að sögn varnarmálaráðuneytisins.

Talsmaður innanríkisráðuneytisins segir að meðal hinna handteknu hafi verið ungmenni sem kveiktu í dekkjum og ruslagámum til þess að hindra ferðir öryggissveita. Þá hafi einhverjir grýtt lögreglu og lent í áflogi við öryggissveitir.

Fjögurra daga útgöngubanni lauk á sunnudagskvöld. Ekki er víst hvaða aðgerðir taka við í framhaldinu í baráttunni við faraldurinn. Yfir 177 þúsund hafa greinst með kórónuveiruna í landinu og yfir 5.600 eru látnir.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV