Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Forsetinn og annað valdamikið fólk espuðu lýðinn“

19.01.2021 - 22:40
Mynd: EPA-EFE / ABACA POOL
Trump Bandaríkjaforseti óskaði eftirmanni sínum velfarnaðar í sínu síðasta ávarpi til bandarísku þjóðarinnar sem forseti. Hann sagði að stjórnmálahreyfingin sem hefði hafist með kjöri hans árið 2016 væri enn í startholunum og ætti bjarta framtíð. Mitch McConnell, leiðtogi repúblíkana í öldungadeildinni, sagði í kvöld að Trump hefði átt stóran þátt í áhlaupi stuðningsmanna hans á þinghúsið í byrjun mánaðarins.

Donald Trump fór víða í ræðu sinni í kvöld og taldi upp helstu afrek stjórnar sinnar. Fyrir kórónuveirufaraldurinn hefði efnahagslífið verið í blóma, atvinnuleysi í sögulegu lágmarki og hlutabréfaverð í hæstu hæðum. Bandaríkjamenn hefðu haft það betra en áður og fyrir hans tilstilli myndi bandaríkjamönnum ganga betur að ná sér upp aftur eftir kreppuna sem faraldurinn veldur. 

Trump bað landa sína að biðja fyrir því að næstu bandaríkjastjórn vegni vel í sínum störfum. Hann ætlar ekki að vera viðstaddur þegar Joe Biden tekur við embætti á morgun. Vinsældir Trumps hafa dvínað mjög á árinu, ekki síst eftir áhlaupið á þinghúsið í byrjun mánaðarins. Mitch McConnell, leiðtogi Repúblíkana í öldungadeildinni, segir að Trump forseti hafi átt sinn þátt í árásinni.  „Síðast þegar öldungadeildin kom saman höfðum við nýlega endurheimt þinghúsið úr höndum ofbeldismanna og glæpamanna sem reyndu að hindra þingið í að sinna skyldustörfum sínum. Múgurinn var mataður á lygum. Forsetinn og annað valdamikið fólk espuðu lýðinn,“ sagði McConnell.