Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fólk verður hvatt til að hvíla sig eftir flug

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Almannavarnir ætla að breyta skilaboðum sínum um sóttkví sem send eru til fólks sem kemur til landsins. Framvegis verða þau sem eiga langt ferðalag fyrir höndum, utan suðvesturhornsins, hvatt til að hvíla sig áður en haldið er af stað.

Fólk sem kemur til landsins og á dvalarstað utan suðvesturhornsins hefur hingað til fengið þau skilaboð að það eigi að koma sér beint í sóttkví á dvalarstað,  burtséð frá þreytu, tíma dags eða þeirri vegalengd sem fyrir höndum er. Þessu á nú að breyta.

Fjölskyldan sem lenti í slysinu í Skötufirði á laugardag var nýkomin til landsins og á leið heim til Flateyrar í sóttkví. Kona lést eftir slysið en tildrög þess eru enn til rannsóknar hjá lögreglu. Jóhann Sigurjónsson, læknir á Ísafirði, var einn þeirra sem komu að slysinu. Hann hefur sjálfur farið til útlanda frá því að hertar reglur voru teknar upp á landamærum. 

„Skilaboðin sem fólk er að fá, og ég hef fengið í þrígang í ferðum mínumtil landsins, er að maður á tafarlaust að koma sér á endanlegan sóttkvíarstað,” segir Jóhann. 

Hann vill ekki tengja þessi skilaboð beint við slysið en það hafi vakið hann til umhugsunar. Einungis er hægt að skrá einn sóttkvíarstað við heimkomu. Fólk sem býr utan suðvesturhornsins getur átt langa bílferð fyrir höndum áður en þangað er komið. Einungis megi stoppa ef brýn nauðsyn krefur. 

„Það er sem sagt ekki nóg að það sé nauðsynlegt heldur verður að vera brýn nauðsyn. Sem býður upp á ákveðnar hártoganir í skilgreiningu.”

Honum hafi verið sagt að hvorki þreyta, tími dags, lengd ferðalags né slæm færð gæfi brýna nauðsyn. Jóhann vakti máls á þessu á Facebook í gærkvöld og hefur heyrt frá Almannavörnum. 

„Það sem ég hef fengið að heyra frá fulltrúum Almannavarna í morgun er að þetta verði samstundis tekið til endurskoðunar og þessu verklagi breytt,” segir hann. 

Héðan af verði fólk sem kemur til landsins og á langa ferð fyrir höndum hvatt til að hvílast, áður en haldið er af stað.