Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ekki hægt að slátra vegna birgðasöfnunar á kjöti

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Mikið hefur safnast upp af nauta- og svínakjöti sem veldur því að ekki hefur verið hægt að slátra skepnum. Þetta segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands. Biðlistar með gripi í sláturhús eru nú þrisvar sinnum lengri en í venjulegu árferði. Samtökin eiga í viðræðum við landbúnaðarráðuneytið um mögulega lausn á vandamálinu

Birgðir af nauta- og svínakjöti hafa safnast upp hjá sláturleyfishöfum vegna fækkunar ferðamanna, lokunar veitingastaða og almennt færri samkoma. Vegna þessa hefur verið erfiðara að koma gripum í slátrun. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landsamtaka kúabænda segir að á milli tvöþúsund og fimm hundruð til þrjúþúsund nautgripir bíði eftir að vera slátrað sem er þrisvar sinnum fleiri en í venjulegu árferði. 

Gunnar segir að svipað hafi átt sér stað hjá svínabændum, „sem kannski endurspeglast í því að gripirnir eru stærri þegar þeir fara í sláturhús og síðan er að verða talsverð birgðasöfnun í frosnu svínakjöti á markaði.“

Sama vandamál hefur komið upp í Evrópu. Evrópusambandið hefur gripið til aðgerða og styður nú afurðastöðvar til að frysta kjöt. „Þannig að þeir eru í raun og veru að borga frystingu á kjöti til einhverra mánaða  og tryggja það að bændur geti afsett sína vöru á meðan að  menn geyma bara einhver fjöll af kjöti“

Bændasamtökin eiga í viðræðum við landbúnaðarráðuneytið um málið. „Þannig að við höfum nú kannski verið að horfa svolítið til þess hvort væri hugsanlegt að fara svipaða leið og Evrópusambandið hefur gert í raun og veru að frysta kjöt og geyma þangað til kúnninn birtist.“
 
„Það eru ekki komnar neinar niðurstöður ennþá í málinu en það er verið að horfa til þess hvernig við getum nálgast þetta á skynsamlegastan hátt en eins og ég segi þá er þetta ansi snúin staða því miður.“