Þessi orð stönguðust á við fréttatilkynningu HSÍ frá 2. janúar. Þar sagði meðal annars: „Eftir læknisskoðun hjá læknum landsliðsins er það ljóst að Aron verður ekki leikfær nú í janúar.“ HSÍ sendi svo frá sér aðra tilkynningu í gær þar sem ítrekað var að Aron hefði sannarlega verið skoðaður af íslenskum. Ummæli Svensson væru byggð á misskilningi og hefði hann beðist afsökunar.
„Þetta var náttúrulega mjög skrítið verð ég að segja að vakna við þetta í gær. Hann [Tomas Svensson] hringdi náttúrulega í mig um leið og baðst afsökunar. En ég auðvitað gekk á hann og spurði hann hvað honum gengi til. Í rauninni er það sem kemur út úr þessu að það var bara samskiptaleysi hjá þeim, þjálfurunum og innan HSÍ. Það er í rauninni ekkert gruggugt í gangi,“ sagði Aron Pálmarsson þegar hann ræddi við RÚV í dag.
„Það er enginn misskilningur í gangi“
Brynjólfur Jónsson læknir sem hefur starfað með HSÍ í mörg ár skoðaði Aron og kvað upp dóminn. „Binni læknir er búinn að vera inn í þessu síðan þetta gerðist. Hann er búinn að vera í samskiptum við læknana úti [hjá Barcelona], við mig. Svo flýg ég heim daginn eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar og hitti Binna síðan daginn eftir það. Þetta mál er í rauninni bara í meira lagi óheppilegt og skrítið. Það er enginn misskilningur í gangi. Þetta er í rauninni bara samskiptaleysi,“ sagði Aron.