Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Borgarstjórn samþykkir tillögu um Arnarholt

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Borgarstjórn samþykkti nú á áttunda tímanum einróma tillögu um að ráðast í heildstæða athugun á starfsemi vistheimilisins Arnarholts.

Tillagan felur í sér að Dagur B. Eggertsson,borgarstjóri fari þess á leit við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra að alsherjarúttekt fari fram á starfsemi Arnarholts, sem og öðrum meðferðar- eða vistheimilum eftir atvikum á tilteknu tímabili. Allir borgarfulltrúar samþykktu tillöguna. 

Greinargerð tillögunar er svohljóðandi:

„Samstaða er um það í borgarstjórn að fullt tilefni sé til að taka út vistheimilið að Arnarholti eftir að fram komu upplýsingar um illan aðbúnað þar fyrr á árum. Athugun borgarlögmanns hefur leitt í ljós að jafnvel þótt Reykjavíkurborg sé sannarlega bær til að taka ákvörðun um að skipa nefnd til að gera almenna og heildstæða athugun á starfsemi vistheimilisins Arnarholts eða annarra meðferðar- og vistheimila sem rekin hafa verið á vegum Reykjavíkurborgar á tilteknu árabili, þá myndi slík nefnd að óbreyttum lögum ekki hafa þær heimildir sem nauðsynlegar eru til að framkvæma athugun með þeim hætti sem þörf er á. Með hliðsjón af þeim verkefnum sem ætla má að þurfi að fela nefnd til að gera úttekt á starfsemi Arnarholts eða annarra meðferðar- eða vistheimila með viðhlítandi hætti verður að telja nauðsynlegt að skýrar lagaheimildir liggi til grundvallar skipan, stöðu, valdheimildum og verkefnum slíkrar nefndar. Með vísan til eðli þeirra upplýsinga sem komu nýverið fram í dagsljósið um vistheimilið Arnarholt er því talið rétt að borgarstjóri fari þess á leit við forsætisráðherra að hlutast til um að fram fari almenn og heildstæð athugun á starfsemi vistheimilisins Arnarholts og eftir atvikum annarra meðferðar- og vistheimila á tilteknu tímabili samkvæmt nánari útfærslu,“ segir í tillögunni.