Á tólfta tímanum i gærkvöldi var tilkynnt um eld í bíl við Vífilstaðaveg í Garðabæ þar sem hann stóð á bílastæði. Slökkvilið var kallað á vettvang og gekk greiðlega að slökkva eldinn. Ekki er vitað um eldsupptök.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Af öðrum verkefnum lögreglu má nefna að upp úr klukkan átta í gærkvöld var tilkynnt um konu í annarlegu ástandi í hverfi 108. Hún gat hvorki sagt til nafns né framvísað skilríkjum og var hún handtekin og vistuð í fangageymslu sökum ástands. Um klukkan hálf níu var tilkynnt um mann sem hafði stolið vínflösku af veitingastað í miðborginni. Hann var handtekinn skömmu síðar í annarlegu ástandi og vistaður sökum í fangageymslu lögreglu. Maðurinn er grunaður um gripdeild og brot á vopnalögum.
Þá bárust lögreglu tvær tilkynningar um eignaspjöll í verslunum í miðborginni, annars vegar í tóbaksverslun og hins vegar í skartgripaverslun.