Ákvörðun um prófkjör tekin í pottapartíi á Þingvöllum

Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson / RÚV

Ákvörðun um prófkjör tekin í pottapartíi á Þingvöllum

19.01.2021 - 13:09

Höfundar

„Ég var alveg ákveðin í því á þessum tíma, ég ætlaði aldrei í pólitík, það stóð aldrei til. Ég ætlaði að fara annað hvort í alþjóðastofnanir eða utanríkisþjónustuna,” segir Ragnheiður Elín um námsárin í Washington D.C. Lífið tók því óvænta stefnu þegar hún skellti sér í prófkjör og tók í kjölfarið sæti á Alþingi. Í dag á nýsköpun hug hennar allan þar sem hún starfar sem framkvæmdastjóri nýsköpunarfyrirtækis.

Ragnheiður Elín ólst upp í Keflavík þar sem hún stundaði íþróttir af kappi. Sjálf segist hún hafa fengið dæmigert uppeldi og það hafi verið gott að alast upp í bæ af þessari stærð. „Það er allt til alls. Fjarlægðin frá Reykjavík er stutt en þú færð mikið frelsi,” segir Ragnheiður Elín. Hún viðurkennir að hún hafi mögulega fengið ögn meira frelsi en systkini hennar. „Ég er yngst af fjórum þannig að það var öllum orðið sama,” segir hún. Ragnheiður Elín var gestur Huldu Geirsdóttur í Sunnudagssögum á Rás 2. 

Að vera yngst af fjórum systkinum þýddi að foreldrar hennar voru rígfullorðnir á mælikvarða þess tíma. Mamma hennar var 39 ára þegar Ragnheiður Elín fæddist og hún segist hafa skammast sín ógurlega fyrir foreldra sína á unglingsárunum. Sjálf eignaðist Ragnheiður Elín sitt fyrsta barn 35 ára og þegar annað barn fæddist fimm dögum fyrir 41 afmælisdaginn segir hún mömmu sína eflaust hafa setið á skýi og hlegið sig máttlausa. 

Alzheimer ríkjandi fjölskyldusjúkdómur

Mamma Ragnheiðar Elínar lést 75 ára en hún hafði þá glímt við alzheimer í mörg ár. Hún greindist ung og síðustu 10-15 árin stefndi á einn veg. „Hún var á Víðihlíð í Grindavík síðustu árin og var þá alveg út úr heiminum. Maðurinn minn, ég kynnist honum 1997, hann þekkti hana aldrei. Hún dó ekki fyrr en 2003,” segir Ragnheiður Elín. „Þetta er ömurlegur sjúkdómur og maður óskar engum þess að fá þau örlög.”

Sjúkdómurinn virðist vera ríkjandi í fjölskyldunni og eftir á að hyggja voru bæði amma Ragnheiðar Elínar og ömmubróðir með sjúkdóminn, en þá var þetta bara kallað kölkun. Systkini mömmu hennar eru einnig með sjúkdóminn. 

Alzheimer-samtökin hafa unnið mjög gott starf, að sögn Ragnheiðar Elínar og fylgist hún vel með starfinu sem fer fram þar, sérstaklega hvað varðar fólk sem greinist ungt. Hún segir að nú sé meira vitað um sjúkdóminn og einkenni hans og því sé hægt að sjá hversu snemma mamma hennar byrjaði í raun og veru að glíma við þetta. Þá voru að koma fram einkenni sem ekki voru þekkt á þeim tíma.

„Þetta er algjör vakning á örfáum árum sem hefði verið svo gott að vita. Ég horfi til baka og ég var ofboðslega góð við mömmu og sinnti henni vel. En svona á síðari unglingsárum: „Bíddu ertu ekki búin að þvo buxurnar mínar? Þú vissir að ég ætlaði að nota þær.” Ég hefði viljað sleppa þeim svona eftir á að hyggja. En ég sinnti henni samt vel og er ekki með samviskubit yfir því. En maður hefði gert þetta öðruvísi,” segir Ragnheiður Elín.

Lærði að borða kartöflur í Idaho

Eftir grunnskólagöngu í Keflavík lá leiðin til Reykjavíkur þar sem hún skráði sig í Kvennaskólann. Hún gerði þó hlé á náminu í eitt ár þegar hún fór sem skiptinemi til Boise í Idaho. Þegar staðsetningin á skiptináminu kom í ljós gat pabbi hennar ekki hætt að hlæja. Fram að þessu hafði Ragnheiður Elín aldrei getað borðað karftöflur og var nú á leið til mesta kartöfluræktunarhéraðs Bandaríkjanna. Í Idaho kom þó ekkert annað til greina en að láta sig hafa það að borða kartöflur og í dag borðar hún þær með bestu lyst.

Systir Ragnheiðar í Bandaríkjunum var að velja á milli háskóla á þessu ári og fór Ragnheiður því talsvert um Bandaríkin að skoða mismunandi skóla með fjölskyldunni. Hún féll algjörlega fyrir Georgetown í Washington D.C. í þeim heimsóknum og ákvað þá strax að hún skyldi sjálf læra þar. Eftir að hafa lokið námi við stjórnmálafræði við Háskóla Íslands skráði hún sig því í nám í Georgetown. „Þetta var algjört ævintýri, frábær skóli, krefjandi en allt áhugavert. Mestu máli skiptir fólkið sem ég kynntist,” segir Ragnheiður Elín.

Eftir útskrift úr Georgetown fékk hún atvinnuleyfi til eins árs í Bandaríkjunum og ætlaði að reyna fyrir sér á vinnumarkaðnum úti. Hún fékk strax vinnu hjá íslenska sendiráðinu og vann þar í ýmsum verkefnum. Hún fór aftur til Íslands um jólin en skildi allt dótið sitt eftir, enda ætlaði hún að stoppa stutt við heima. Mamma hennar var byrjuð að veikjast á þessum tíma og fjölskylduaðstæður urðu til þess að hún ílengdist á Íslandi. Að lokum var atvinnuleyfi hennar í Bandaríkjunum að renna út og hún áttaði sig á því að hún þyrfti að fara út til að sækja allt dótið sitt. 

Varð óvart aðstoðarmaður ráðherra

Áhuginn á að flytja aftur til Íslands var ekki mikill en þar sem lítið var eftir af atvinnuleyfinu var fátt annað í stöðunni. Á flugvellinum í Keflavík hitti hún Jón Sigurðsson, sem þá var viðskiptafulltrúi hjá Útflutningsráði. Þau fóru að tala saman og með dramatískum hætti tilkynnti hún honum að hún væri á leiðinni til Washington D.C. að sækja jarðneskar eigur sínar. Tveimur til þremur dögum eftir að Ragnheiður Elín fór út náði Jón að hafa upp á henni og spyr hvort hún hafi áhuga á að vinna í New York. „Til að gera langa sögu stutta, fór ég bara heim að ná í dótið mitt þar og fór til New York. Var þar í tvö ár,” segir Ragnheiður Elín. Þarna var hún komin á hálfgerðan draumastað í lífinu. „Að vera 27 ára, einhleyp með engar skuldbindingar að búa inn á Manhattan. Það er ekki leiðinlegt. Í besta starfi í heimi, að kynna Ísland á erlendum vettvangi. Þetta var stórkostlegt,” segir Ragnheiður Elín.

Að tveimur árum liðnum breyttist svo starfið. Utanríkisráðuneytið tók yfir rekstur skrifstofunnar og starfstöðin var flutt til Íslands. Flutningarnir hentuðu Ragnheiði Elínu alveg ágætlega en þarna var hún að kynnast eiginmanni sínum og tímasetningin að flytja aftur til Íslands því góð. Hún hélt áfram að vinna fyrir Útflutningsráð og eitt af verkefnum hennar þar var nýsköpunarráðstefna. Undirbúningurinn fyrir ráðstefnuna var langur og strangur og að ferlinu loknu átti að halda móttöku hjá forseta Íslands á Bessastöðum. „Allir hlökkuðu mikið til að fara á Bessastaði en að morgni þessa dags hringdi þáverandi forsetaritari og sagði mér að því miður væri forsetinn veðurtepptur erlendis,” segir Ragnheiður Elín. Forsetaritari bauð hópnum þó að mæta, hann sjálfur gæti tekið á móti þeim. „Með fullri virðingu fyrir þeim ágæta manni var það ekki endilega það sem við vorum að sækjast eftir. Við héldum krísufund um hver gæti haldið móttöku með stuttum fyrirvara,” segir Ragnheiður Elín. Hún fékk þá hugmynd að hringja í nýjan fjármálaráðherra, Geir Haarde, en hann hafði nýlega mætt á fund með hópnum. Hún vissi þó ekkert hvernig væri best að ná sambandi við ráðherra og hringdi í fjármálaráðuneytið. Þar fékk hún samband við ritara Geirs Haarde sem gaf henni beint samband við ráðherra.

Geir tók vel í bón Ragnheiðar og með nánast engum fyrirvara var hægt að halda ráðstefnuna og móttöku með fjármálaráðherra. „Ráðstefnan gekk vel og þegar allir eru farnir og ég er að þakka honum fyrir spyr hann hvernig mér myndi lítast á að gerast aðstoðarmaður fjármálaráðherra. Ég á víst að hafa sagt: „Ertu bilaður? Ég er ekki hagfræðingur,” segir Ragnheiður Elín um þessa óvæntu beiðni. Geir sagðist þá sjálfur vera hagfræðingur auk þess sem ráðuneytið væri fullt af hagfræðingum. Hann væri að leita að einhverjum sem gæti reddað móttöku og ráðstefnu með dags fyrirvara. 

Ragnheiður Elín vann sem aðstoðarmaður ráðherra næstu níu árin í þremur ráðuneytum. Fyrstu sjö árin voru í fjármálaráðuneytinu og svo tók við ár í utanríkisráðuneytinu og ár forsætisráðuneytinu. „Þegar þú ert aðstoðarmaður ertu besti vinur aðal. Þú ert með eyrað, þú ert nálægt ákvörðunartökunni, þú getur haft áhrif á stefnumótun og framkvæmd þess sem ráðherra og ráðuneytinu er falið að framkvæma af Alþingi. En þú ert ekki í forsvari og það átti ótrúlega vel við mig. Það vissi enginn hver ég var. Ég var bara aðstoðarmaður ráðherra og mitt verkefni var bara að ráðherra gengi vel," segir Ragnheiður Elín.

Með barn á brjósti í byltingu

Á þessum níu árum smitaðist Ragnheiður Elín af stjórnmálabakteríunni þrátt fyrir að stefnan hafi ekki verið sett á þingmennsku eða stjórnmál. Það breyttist þó í sumarbústaðarferð með vinkonuhópnum. „Þarna í pottinum var tekin ákvörðun um að ég færi í prófkjör. Var hálfgjört slys,” segir Ragnheiður Elín um ákvörðunina að bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. „Ég get ekki sagt eins og margir sem fara í pólitík að margir hafi hringt í sig og hvatt sig. Þetta var bara ákveðið í pottinum á Þingvöllum,” segir hún. 

Bæði prófkjörið og kosningarnar í kjölfarið gengu vel fyrir Ragnheiði Elínu og tók hún sæti á þingi árið 2007. Kjörtímabilið reyndist þó ekki langt og fljótlega fór allt í háaloft, en aðeins örfáum dögum áður en Geir Haarde flutti „Guð blessi Ísland”-ræðuna eignaðist Ragnheiður Elín sitt annað barn. „Ég man ekki eftir þessum tíma, það er algjör brjóstaþoka. 20. janúar þegar búsáhaldarbyltingin byrjar er ég föst í þinghúsinu og barnið heima og ég er maturinn. Alls konar persónulegar sögur í gegnum það,” segir Ragnheiður Elín.

Í kjölfarið er boðað til nýrra kosninga og nú fór hún að fá símtöl frá fólki úr Suðurkjördæmi og hún hvött til að bjóða sig fram þar. Hún sagðist þekkja sitt heimafólk nógu vel til þess að vita að hún yrði að búa í kjördæminu til þess að fá kosningu og eiginmaður stakk upp á því að þau myndu einfaldlega flytja til Keflavíkur. „Þá fór ég í það prófkjör og það gekk eftir. Þá tóku við fjögur mjög löng ár í harðri stjórnarandstæðu. Svo annað prófkjör og aðrar kosningar sem gengu líka mjög vel og þá var ég komin í ríkisstjórn”, segir Ragnheiður Elín. 

„Ég er mjög stolt af því sem ég tók þátt í. Að hafa haft tækifæri til að breyta heiminum, breyta samfélaginu til hins betra. Kynnst ógrynni af fólki út um allt land sem lagði mikið á sig til að styðja mann til góðra verka. Var þátttakandi í sögunni á svo skrýtnum tímum,” segir Ragnheiður Elín um árin á Alþingi. Hún sér þó ekki fyrir sér að snúa aftur. „Ég er hætt í pólitík, maður á aldrei að segja aldrei en ég er aldrei á leiðinni aftur í pólitík, þetta er orðið gott,” segir Ragnheiður Elín.

Sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra kom Ragnheiður Elín að fjölmörgum málaflokkum. Einn af þeim var nýsköpun og það var málaflokkur sem hún þekkti lítið til áður en hún tók við ráðherralyklunum. Hún hafði þó mikinn áhuga á geiranum og einsetti sér að kynnast nýsköpunarfyrirtækjum og starfsumhverfi þeirra eins vel og hún gat. Á þessum árum átti hún mörg samtöl við aðstoðarmann sinn hversu gaman það hlyti að vera að starfa hjá nýsköpunarfyrirtæki. Í dag má því segja að draumur hennar hafi ræst en nýlega tók hún við starfi framkvæmdastjóra hjá nýsköpunarfyrirtækinu Alor, en fyrirtækið vinnur að þróun og framleiðslu á umhverfisvænum álbatteríum.

Óhefðbundið jólahald

Jólahaldið hjá fjölskyldunni var með nokkuð óvenjulegum hætti. Sonur hennar sem er 18 ára greindist með kórónuveiruna þremur dögum fyrir jól. „Við fórum strax í sóttkví þannig að jólin urðu dálítið öðruvísi fyrir vikið. Við vorum reyndar heppin, í fyrsta lagi að hann fór létt í gegnum þetta, 18 ára og hraustur sem betur fer. Fékk lítil einkenni. Svo búum við þannig að hann gat verið í einangrun heima hjá okkur. Við höfðum þá restina af húsinu en hann var bak við glerhurð með herbergið sitt og baðherbergi gat komið og vinkað. Hann fékk bara jólamatinn á bakka og svo settum við tölvuna í sætið hans og hann var á Zoom. Við opnuðum pakkana þannig,” segir Ragnheiður Elín. 

Þau tóku þessu af æðruleysi en hún viðurkennir að þetta hafi vissulega verið vesen. „Að reyna að kaupa jólamatinn og síðustu jólagjafirnar á netinu þremur dögum fyrir jól. En við eigum mjög góða að þannig að þetta slappt allt til. Við munum aldrei gleyma þessum jólum,” segir Ragnheiður Elín.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér.