Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

53 grunnskólabörn í sóttkví eftir bíóferð

19.01.2021 - 12:57
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
53 börn í þriðja bekk í Breiðagerðisskóla eru í sóttkví eftir bíóferð á sunnudaginn. Bíóferðin var í tilefni af afmæli eins barnsins og daginn eftir greindist eitt barnanna með COVID-19. Skólastjóri Breiðagerðisskóla segir að sem betur fer hafi verið starfsdagur í skólanum í gær, annars hefðu mun fleiri verið útsettir fyrir smiti.

„Ég vissi ekki af þessari bíóferð fyrr en ég fékk símtal frá rakningarteyminu í gærkvöldi,“ segir Þorkell Daníel Jónsson, skólastjóri í Breiðagerðisskóla, í samtali við fréttastofu. „Þetta var afmæli og foreldrarnir stóðu fyrir þessu,“ bætir hann við. Spurður hvort hann telji þetta of stóran hóp í ljósi aðstæðna segir hann að þetta hljóti að teljast á mörkunum. „Í skólanum gildir að þau mega vera 50 saman í rými, nema í matsalnum mega þau vera fleiri,“ segir hann.

Börnin verða í sóttkví út vikuna, sennilega fram á mánudag. Þorkell segir að það hafi viljað svo heppilega til að það hafi verið starfsdagur í gær. „Þannig að ekkert barnanna kom í skólann eftir bíóferðina. Þau sem fara í sóttkví eru þau sem fóru í bíó, engir kennarar og ekki aðrir nemendur,“ segir hann. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV