Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vill viðbragðsaðila framar í forgangsröð um bóluefni

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Varðstjóri hjá lögreglunni á Ísafirði segir að aðstæður viðbragðsaðila við banaslys sem varð í Skötufirði á laugardag gefi til kynna hve brýnt sé að bólusetja þá. Tuttugu manns fóru í sóttkví eftir slysið.

Af fimm læknum sem komu á vettvang á laugardag hafði einungis einn verið búinn að fá bóluefni. Gylfi Þór Gíslason, varðstjóri hjá lögreglunni á Ísafirði, segir þörf á að endurskoða forgangsröð í bólusetningu. Fjöldi viðbragðsaðila þurfti að fara í sóttkví eftir slysið. 

„Við erum ekki ánægð með þetta. Það fóru tuttugu manns í sóttkví eftir þetta slys í sólarhring,“ segir Gylfi.

Það sé mikið í litlu samfélagi og maður spyrji sig hvort ekki megi gera betur. 

Þá var færð með versta móti sem varð til þess að viðbragðsaðilar voru um klukkstund að fara áttatíu kílómetra leið á slysstað. 

„Það var meira en krapi. Það var gler, ís yfir öllu. Það var svakalegt. Allavega vantaði upp á þjónustu. Að gera þetta bara fært, þetta voru svakalegar aðstæður.“

 Vegfarendur sem komu fyrstir að slysstað í Skötufirði á laugardag þurftu að aka áfram þar til símasamband náðist til þess að hringja í Neyðarlínuna. Gylfi segir stopult símasamband vandamál víða í Djúpinu og það hafi orðið til vandræða áður, til að mynda þegar slys varð í Hestfirði 2018.

„Aðilar sem komu að því slysi þurftu að fara frá vettvangi til að koma sér í símasamband og gátu þar af leiðandi ekki lýst nógu vel hve alvarlegt það slys var.“

Það var einnig banaslys?

 „Já, það var einnig banaslys.“

Slysið sem varð á laugardag er enn til rannsóknar hjá lögreglu.