Útbreiðsla farsóttarinnar – smit nálgast 100 milljónir
Samkvæmt samantekt Johns Hopkins háskólans hafa yfir 2 milljónir dáið úr COVID-19. Flestir í Bandaríkjunum, nærri 400.000, og þar á eftir í Brasilíu eða ríflega 209.000. Í Evrópu hafa yfir 400.000 látist úr sjúkdómnum.
Nýgengi smita í Evrópu
Hér á Íslandi er staðan góð miðað við önnur ríki í Evrópu. Nýgengi smita gefur okkur ákveðnar vísbendingar um þróun faraldursins. Með nýgengi er átt við fjölda smita á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur. Sóttvarnastofunun Evrópu (ECDC) heldur utan um tölur um nýgengi á evrópska efnahagssvæðinu og samkvæmt þeim er það nú lægst á Íslandi eða 48,18 en hæst á Tékklandi eða 1.512,84. Hér má sjá nýgengi smita í nokkrum ríkjum á EES svæðinu (miðast við stöðuna eftir fyrstu viku ársins):
Ísland | 48,18 |
Finnland | 62,58 |
Grikkland | 82,12 |
Noregur | 157,95 |
Þýskaland | 324,25 |
Frakkland | 329,21 |
Pólland | 329,21 |
Ítalía | 379,05 |
Spánn | 495,07 |
Danmörk | 505,95 |
Svíþjóð | 790,09 |
Írland | 1.253,69 |
Tékkland | 1.512,84 |
Evrópa
Samkvæmt Johns Hopkins hafa ríflega 30 milljónir greinst með COVID-19 í Evrópu og dauðsföll eru yfir 660.00. Rússland er það ríki þar sem flestir hafa greinst eða yfir 3,5 milljónir. Bretland fylgir fast á eftir með ríflega 3,4 milljónir smita. Bretum hefur gengið illa að ná tökum á faraldrinum og kenna helst um stökkbreyttu afbrigði veirunnar sem smitast hraðar en önnur afbrigði. Í nágrannalandinu Írlandi hefur smitum einnig fjölgað hratt og nýgengi smita er eitt það hæsta í Evrópu. Gröfin hér fyrir neðan byggja gögnum frá ECDC og sýna þróun faraldursins á síðasta ári og fyrstu viku þessa árs.
Norður-Ameríka
Yfir 24,5 milljónir smita hafa greinst í álfunni samkvæmt Johns Hopkins. Þar af nærri 24 milljónir í Bandaríkjunum, sem er um fimmtungur allra smita í heiminum. Fjöldi smita á dag hefur verið um og yfir 200.000 nánast samfleytt frá því í nóvember. Bólusetning er hafin með bóluefnum Pfizer/BioNTech og Moderna í Bandaríkjunum en hún er sögð ganga bæði hægt og illa. Joe Biden, sem tekur við embætti forseta Bandaríkjanna á miðvikudag, hefur lofað að ráða bót á því.
Suður-Ameríka
Í Suður-Ameríku hafa 17,5 milljónir greinst með veiruna. Langflest smit eru í Brasilíu, nærri átta og hálf milljón. Þar eins og í Bretlandi hefur greinst stökkbreytt afbrigði veirunnar sem virðist smitast hraðar á milli manna. Næst flest eru þau í Kólumbíu eða nálægt 2 milljónum.
Asía
Í Asíu hefur verið tilkynnt um tæplega 14,7 milljónir smita. Yfir 10,5 milljónir hafa greinst á Indlandi, næst fjölmennasta ríki heims. Athygli vekur að samkvæmt opinberum tölum frá Kína, fjölmennasta ríki heims, hafa aðeins tæplega 98.000 greinst með COVID-19. Veiran á einmitt upptök sín í borginni Wuhan í Kína. Reglulega berast fréttir af því að fólk sé skikkað í útgöngubann þar í landi þegar veirusmitum tekur að fjölga. Nú síðast var hátt í þremur milljónum skipað að halda sig heima í Jilin-héraði í austurhluta landsins.
Afríka
Í allri Afríku hafa tæplega 3,3 milljónir greinst með COVID-19. Mesti fjöldi smita er í Suður-Afríku eða ríflega 1,3 milljónir. Enn eitt stökkbreytt afbrigði sem smitast hraðar greindist þar nýlega. Á heildina litið virðast fá smit í ríkjum Afríku miðað við mörg önnur ríki í heiminum. Norður-Afríku ríkin Marokkó, Túnis og Egyptaland fylgja á eftir Suður-Afríku hvað varðar fjölda smita. Í Marokkó nálgast þau 460 þúsund, ríflega 180 þúsund hafa greinst í Túnis og rétt yfir 156 þúsund í Egyptalandi.
Eyjaálfa
Af heimsálfunum hafa fæstir greinst í Eyjaálfu, rétt yfir 57 þúsund. En þar býr líka fæst fólk. Tæplega 29 þúsund Ástralar hafa greinst með COVID-19 og tæplega 2.300 hafa greinst á Nýja-Sjálandi. Á Nýja-Sjálandi hafa verið harðar takmarkanir á landamærunum. Markmiðið er með því er að halda veirunni frá og virðist það hafa tekist ágætlega.