Einhvern veginn að verða eðlilegt
Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður er í Washington. Hann segir andrúmsloftið í borginni frekar súrt. Fáir eru á ferli, gífurleg öryggisgæsla en svo virðist þetta vera orðin einhvern veginn eðlilegt, nú eftir ár af sóttvarnaraðgerðum og heimsfaraldri. Hann segir að talsverður reykur hafi komið upp af eldinum og mörgum hafi brugðið.
Guiliani ætlar ekki að vera með
Og svo berast fregnir af því að Rudy Guiliani verði ekki meðal verjenda Donald Trump þegar öldungadeildin tekur fyrir kæru til embættismissis í næstu viku.
„En ekki af því að hann vill það ekki eða er súr yfir því að Trump greiði ekki reikningana, heldur vegna þess að hann var einn þeirra sem hélt eldræðu miðvikudaginn 6. janúar áður en múgurinn réðst á þingið, svo hann telst vitni. Eða það er opinber skýring, í það minnsta,” sagði Ingólfur Bjarni í kvöldfréttatímanum.
Skoða nýja embættismenn Biden
Þingnefndir byrja að skoða þá sem Biden hefur tilnefnt í lykilembætti á morgun, daginn áður en Biden verður settur í embætti.
„Það er alvanalegt að væntanlegir ráðherrar og yfirmenn lykilstofnana séu teknir til skoðunar all nokkru fyrir embættistöku nýs forseta, en það óvenjulega er það hafi ekki gerst fyrr. Þetta er eiginlega óvenjuseint og gæti hugsanlega flækst eitthvað fyrir, fyrstu daga Bidens í embætti.”
Hægt er að hlusta á viðtal við Ingólf Bjarna í kvöldfréttum 18. janúar 2021 í spilaranum hér að ofan.