Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sólon óskast! – Um misskiptingu, mótmæli og þannig

Mynd: AP / AP

Sólon óskast! – Um misskiptingu, mótmæli og þannig

18.01.2021 - 09:32

Höfundar

„Er Joe Biden, innanbúðarmaður í Washington til 50 ára, Sólon okkar tíma?“ spyr Halldór Armand Ásgeirsson pistlahöfundur Lestarinnar. Hann veltir fyrir sér ástandinu í Bandaríkjunum um þessar mundir.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Meðalmaður í Bandaríkjunum á í dag mjög erfitt með að halda uppi fjölskyldu með laununum sem hann fær. Það gat hann hins vegar mjög auðveldlega fyrir nokkrum áratugum. Árið 1985 voru meðalárslaun hans einhvers staðar í kringum 24.000 dollara og helstu útgjöld bandarískrar fjögurra manna fjölskyldu, sem sagt húsnæði, bíll, menntun og heilbrigðisþjónusta, kostuðu cirka 12.000 dollara á ári, sem sagt helminginn af því sem hann þénaði.

Í dag getur venjulegur maður í Bandaríkjunum búist við að þéna í kringum 53.000 dollara á ári, sex og hálfa milljón íslenskra króna, en munurinn er sá að útgjöld þessarar sömu fjölskyldu kosta núna 54.000 dollara. Sem sagt útgjöldin við nauðsynjar hafa rokið upp úr öllu valdi og launin hafa alls ekki haldið í við þá þróun.

Á sama tíma hafa laun bandarískra forstjóra tekið stakkaskiptum. Árið 1965 hlaut forstjóri í Bandaríkjunum að meðaltali tuttuguföld laun hins almenna verkamanns. Árið 1989 var þetta hlutfall orðið fimmtíuogníufalt og í dag er það tvöhundruðfalt. Það sama á auðvitað við um laun annarra ráðandi stétta í Bandaríkjunum, þau hafa margfaldast á síðustu áratugum, en millistéttin hefur verið skilin eftir, og þá mest af öllum blue collar-verkamaðurinn sem einu sinni bjó til bíla, þvottavélar og þotur í stórum stíl fyrir heimsbyggðina.

Ríka fólkið ríkt en almenningur á ekki neitt

Bandaríkin eru ríkasta land í heiminum, dollarinn mikilvægasti gjaldmiðill í heimi, en misskiptingin þar er orðin svo ævintýraleg að hinn almenni maður er miklu fátækari en til dæmis í Evrópu. Bandaríska þjóðin á að meðaltali mjög miklar eignir, Ameríkani á að meðaltali helmingi meiri eignir en Spánverji, en miðgildi þessarar tölu er miklu hærra á Spáni en í Bandaríkjunum. Það er að segja, ríka fólkið í Bandaríkjunum er alveg hreint ofboðslega ríkt, og það togar meðaltalið mikið upp á við, en almenningur þar á ekki neitt, manneskjan í miðjunni á peningastiganum á miklu minna en sama manneskja í Evrópu, Kanada, Singapúr og Bretlandi svo dæmi séu tekin.

Það má draga þetta saman svona: Fyrir nokkrum áratugum gat venjulegur maður í Bandaríkjunum auðveldlega haldið uppi fjölskyldu á venjulegum launum. Í dag á hann ekki séns í það.

Heimilislausum hefur fjölgað gríðarlega í Bandaríkjunum á síðustu áratugum. Íbúafjöldi New York-borgar hefur til dæmis verið nokkuð stöðugur frá upphafi níunda áratugarins en þar hefur heimilislausum fjölgað úr sirka 5.000 í tæplega 20.000 á sama tíma. Meðalævilengd Bandaríkjamanna hefur staðið í stað frá árinu 2014 meðan hún heldur áfram að hækka í öðrum háþróuðum ríkjum. Þetta stafar meðal annars af því að sjálfsvíg og andlát vegna áfengis- og lyfjanotkunar hafa aukist mikið á þessum tíma.

Gröfin sýna auðræði

Það er í þessu ljósi sem ég sé atburðina í þinghúsinu í Washington 6. janúar síðastliðinn. Á síðustu áratugum hefur ójöfnuður rokið upp úr öllu valdi, bandarískur iðnaður hefur verið holaður að innan, laun hafa staðið í stað meðan kostnaður við að draga fram lífið hefur aukist mikið og á sama tíma hefur ríkisstjórnin auðvitað endurtekið ausið fé í fólkið sem hefur minnsta þörf fyrir það gegnum björgunarpakka handa bönkum og stórfyrirtækjum. Í þessu umhverfi ætti ekki að koma neinum á óvart að popúlisma, bæði til vinstri og hægri, vaxi sífellt ásmegin. Árið 2010 sáum við Teboðshreyfinguna koma fram hægra megin. Ári síðar var það Occupy Wall Street vinstra megin. Þetta hélt svo áfram með kjöri Trumps 2016. Í sömu kosningabaráttu gekk Bernie Sanders mun betur vinstra megin en við var búist. Á undanförnum árum hafa síðan komið fram nýjar hreyfingar eins og Qanon hægra megin og Antifa vinstra megin, óeirðir og mótmæli hafa farið stigvaxandi.

Það hvort atburðirnir í þinghúsinu voru mótmæli fólks sem er reitt og vonlaust eða hatursfull árás á lýðræðið fer bara eftir því hvern þú spyrð, alveg eins og á við um Búsáhaldabyltinguna hér á landi. Í kjölfar atburðanna í Washington sögðu stjórnmálaleiðtogar um víða veröld að þetta væri áminning um það hversu verðmætt lýðræðið væri. Við því myndi ég segja: Já, já, það er alveg rétt, en þú getur ekki litið fram hjá því hversu grimmilega og harðneskjulega þetta sama lýðræði hefur leikið margt fólk síðustu áratugi. Í rauninni er grátbroslegt að heyra talað um vestrænt fulltrúalýðræði í dag sem einhvers konar alvörulýðræði. Ef maður skoðar gröfin þá sér maður auðræði. Það var þess vegna svolítið magnað að fylgjast með því að á sama augnabliki og einhvers konar valdaránstilraun var í hámarki í bandaríska þinginu þá stóðu markaðir þar í miklum blóma, högguðust ekki, gjörsamlega aftengdir raunveruleikanum. Þá hafa auðæfi milljarðamæringa þar í landi aukist gríðarlega síðan covid-faraldurinn hófst meðan almenningur – almenningur sem á ekki neitt – herðir sultarólina.

Í þessu samhengi finnst mér rétt að minnast þess í fimmhundraðasta skipti á þessum vettvangi að traust til stjórnmála hefur verið í molum hérna á Íslandi í meira en áratug. Við þekkjum það á eigin skinni af hverju fólk brýtur rúður í þinghúsum. Það gerir það ekki vegna þess að það er illt eða heimskt, nú eða landráðamenn, það gerir það vegna þess að það er örvæntingarfullt og hrætt.

Það er því miður ekkert sem bendir til þess að atburðirnir í þinghúsinu hafi verið endalok. Þvert á móti var þetta líklega upphaf. Við skulum ekki gleyma því að Trump fékk meira en 10 milljónum fleiri atkvæði árið 2020 en 2016.

Enn eitt stríðið gegn mannréttindum

Þegar hin mikla sókn gegn borgaralegum réttindum almennings hófst með hinu svokallaða „stríði gegn hryðjuverkum“ í kjölfar árásanna á Tvíburaturnana í New York árið 2001 sagði George Bush, þáverandi forseti: „Annað hvort ertu með okkur í liði eða þú ert í liði með hryðjuverkamönnunum.“

Núna er ný og eðlislík sókn gegn borgaralegum réttindum að hefjast nema hún er ekki undir forystu ný-íhaldsmanna heldur líberala. Joe Biden hefur þegar sagst ætla gera það að forgangsverkefni að setja lög gegn innlendum hryðjuverkamönnum. Rökin eru þau nákvæmlega sömu og 2001. Margir fagna því jafnframt að Trump forseti sé hættur að spúa eitri á samfélagsmiðlinum Twitter eftir að lokað var á aðgang hans og margra stuðningsmanna hans. Twitter hefur áður lokað reikningum sjá vinstri sinnuðum aðgerðarsinnum en það er minna talað um það í dag. Ókjörnir milljarðamæringar í hettupeysum eiga núna ekki bara öll gögn og upplýsingar um okkur, sem þeir nýta sér óspart til þess að sjúga til sín meiri og meiri auðæfi, heldur stunda þeir nú blygðunarlausa ritskoðun á massífum skala og það við mikla ánægju margra þeirra sem í áranna rás hafa verið á móti slíkum tilburðum. Þessi ritskoðun mun leiða af sér ennþá breiðari gjá í samfélaginu og ennþá meiri öfgahyggju.

Hefði Trump verið bannaður ef hann væri forsætisráðherra Íslands?

Það fyrsta sem ég hugsaði þegar Trump var bannaður á Twitter var hvort það sama hefði gerst ef týpa eins og Trump væri forsætisráðherra á Íslandi. Hefði Twitter bannað íslenska Trump? Svar mitt var nei, einfaldlega vegna þess að stjórnendum Twitter væri nákvæmlega sama um hvað væri að gerast á Íslandi og hefðu engra sérstakra hagsmuna að gæta. Þetta hugboð bergmálaði svo um helgina í tístum frá Alex Navalny, rússneska stjórnarandstæðingnum sem rétt svo lifði af eiturárás á liðnu ári, þar sem hann fordæmdi ritskoðunartilburði Twitter og Facebook, meðal annars á þeim grundvelli að alls konar blóðþyrstir harðstjórar fengju að nota miðilinn ótruflaðir um víða veröld. „Twitter er auðvitað einkafyrirtæki,“ skrifar Navalny, „en reynslan sýnir að það eru oftar en ekki slík fyrirtæki sem eru bestu vinir ríkisvaldsins þegar kemur að ritskoðun.“

Er Joe Biden Sólon okkar tíma?

Það sem er að gerast hefur gerst margoft áður í mannkynssögunni. Til að taka dæmi af handahófi getum við valið Aþenu 594 fyrir Krist þar sem Plútark skrifar að „misskipting auðs milli hinna ríku og fátæku hafi verið orðin svo mikil að borgríkið sjálft virtist vera í hættu og engin undankomuleið önnur virtist möguleg en að það lenti í höndum harðstjóra.“

Hinir fátæku fundu fyrir því hvernig staða þeirra versnaði ár frá ári og að allar ákvarðanir stjórnvalda og dómstóla unnu gegn hagsmunum þeirra svo tal um blóðuga byltingu hófst. Hinir ríku bjuggu sig undir að verja eigur sínar með afli. Hins vegar vann skynsemin að lokum. Stjórnspekingurinn Sólon var kosinn til valda. Hann felldi gjaldmiðilinn, létti þannig byrðarnar á herðum skuldara, afskrifaði persónulegar skuldir og kom í veg fyrir skuldafangelsi. Hann kom á fót skattkerfi þar sem hinir ríku borguðu tólf sinnum meira en hinir fátæku og svo framvegis. Hinir ríku kvörtuðu og kveinuðu yfir því að aðgerðir Sólons væru hreint og beint eignarnám. En innan við einni kynslóð síðar voru næstum allir sammála um að aðgerðir hans hefðu bjargað Aþenu frá blóðugri byltingu. En svo eru líka til mörg önnur dæmi úr mannkynssögunni þar sem ekki er greitt skynsamlega úr misskiptingu auðs og þá hefur það endað mjög illa. Er Joe Biden, innanbúðarmaður í Washington til 50 ára, Sólon okkar tíma? Það kemur í ljós. Vonum það besta.