Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Navalny í fjögurra vikna gæsluvarðhald

18.01.2021 - 15:42
epa08944946 A handout picture posted by Kira Yarmysh, press-secretary of Alexei Navalny, on Twitter shows Russian opposition leader and anti-corruption activist Alexei Navalny (L) and his wife Yulia (R) before passing the border control at the Sheremetyevo airport in Moscow, Russia, 17 January 2021. Alexei Navalny was detained by officers of the Russian Federal Penitentiary Service after his arrival to Moscow from Germany.  EPA-EFE/KIRA YARMYSH   EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Alexei Navalny og Júlía, eiginkona hans, við komuna til Moskvu. Mynd: EPA-EFE - Twitter
Dómari í Moskvu úrskurðaði rússneska stjórnarandstæðinginn Alexei Navalny í gæsluvarðhald til 15. febrúar. Hann á að koma aftur fyrir rétt 29. janúar þar sem til stendur að ákveða hvort hann verði látinn afplána þriggja og hálfs árs skilorðsbundinn fangelsisdóm, sem hann hlaut fyrir fjárdrátt.

Navalny hefur jafnan neitað sök og sagt að pólitísk öfl hafi staðið að baki dómnum. Hann birti áskorun til stuðningsmanna sinna á YouTube í dag. Þar hvatti hann þá til að flykkjast út á götur og mótmæla varðhaldsúrskurðinum. 

Stjórnvöld víða á Vesturlöndum krefjast þess að Navalny verði sleppt úr haldi. Hann var handtekinn í gær þegar hann kom heim frá Þýskalandi. Meðal þeirra sem hafa fordæmt handtökuna eru Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og starfsbræður hans Heiko Maas í Þýskalandi og Dominic Raab í Bretlandi.

Hið sama gerði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í dag. Öll kröfðust þau þess að hann yrði látinn laus án tafar. Þá ítrekaði von der Leyen kröfu Evrópusambandsins um óháða rannsókn á því að reynt var að ráða Navalny af dögum í Rússlandi í fyrrasumar.

Hann var þá fluttur alvarlega veikur til Þýskalands. Þarlendir læknar komust að þeirri niðurstöðu að eitrað hefði verið fyrir honum með taugaeitrinu Novichok. Sovéskir vísindamenn þróuðu það á dögum kalda stríðsins.

Navalny dvaldi í Þýskalandi þar til í gær þegar hann sneri aftur heim. Hann var handtekinn á flugvelli í Moskvu og fluttir á lögreglustöð þar sem hann hefur verið í varðhaldi síðan. Honum hefur verið meinað að ræða við lögmenn, en kom myndskeiði til talsmanns síns þar sem hann segir að lög séu brotin á honum.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, vísaði í dag á bug gagnrýni stjórnvalda á Vesturlöndum á meðferðinni á Navalny. Hann sagði að hún væri einungis til komin því að þau vildu draga athyglina frá vandamálum heima fyrir. Talsmaður utanríkisráðuneytisins sagði á Facebook í gærkvöld að vestræn stjórnvöld væru með afskipti af rússneskum innanríkismálum. Þeim væri nær að virða alþjóðalög og einbeita sér að eigin vandamálum.