Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Milljónir Kínverja í útgöngubanni

18.01.2021 - 16:33
epa08936506 A woman has her swab sample collected for a Covid-19 test outside a hospital in Beijing, China, 14 January 2021. China on 14 January reported its first death from Covid-19 death in eight months, while an international expert team from the World Health Organization (WHO) is scheduled to arrive at China's Wuhan on the same day to conduct joint scientific research with Chinese scientists to investigate Covid-19.  EPA-EFE/ROMAN PILIPEY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Hátt í þremur milljónum Kínverja var í dag skipað að halda sig heima eftir að kórónuveirusmitum tók að fjölga í norðausturhluta landsins. Þau eru rakin til farandsölumanns sem var þar á ferð.

 

Kínversk yfirvöld voru talin hafa náð undirtökum í baráttunni við kórónuveiruna þar til tilfellum fór að fjölga í Jilin-héraði í norðausturhluta landsins. Gripið hefur verið til útgöngu- og ferðabanns og umfangsmikilla skimana.

Í dag var hátt í þremur milljónum íbúa í tveimur borgum í Jilin skipað að halda sig heima eftir að 109 sýni greindust jákvæð. Þar með eru ríflega nítján milljónir íbúa í landshlutanum í útgöngubanni. Í sumum tilfellum er þeim einungis heimilt að fara út þriðja hvern dag til að kaupa í matinn.

Farandsölumaður er talinn er hafa smitað fjölda fólks í Jilin. Hann er frá nágrannahéraðinu Heilongjiang. Þar lýstu heilbrigðisyfirvöld yfir neyðarástandi í síðustu viku.

Útgöngubanni var lýst yfir á nokkrum stöðum til viðbótar í Kína um helgina, þar á meðal í einu hverfi í borginni Harbin. Þar fer þessa dagana fram vinsæl sýning á ísskúlptúrum sem alla jafna dregur að sér fjölmargt ferðafólk. 
 

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV