
Milljónir Kínverja í útgöngubanni
Kínversk yfirvöld voru talin hafa náð undirtökum í baráttunni við kórónuveiruna þar til tilfellum fór að fjölga í Jilin-héraði í norðausturhluta landsins. Gripið hefur verið til útgöngu- og ferðabanns og umfangsmikilla skimana.
Í dag var hátt í þremur milljónum íbúa í tveimur borgum í Jilin skipað að halda sig heima eftir að 109 sýni greindust jákvæð. Þar með eru ríflega nítján milljónir íbúa í landshlutanum í útgöngubanni. Í sumum tilfellum er þeim einungis heimilt að fara út þriðja hvern dag til að kaupa í matinn.
Farandsölumaður er talinn er hafa smitað fjölda fólks í Jilin. Hann er frá nágrannahéraðinu Heilongjiang. Þar lýstu heilbrigðisyfirvöld yfir neyðarástandi í síðustu viku.
Útgöngubanni var lýst yfir á nokkrum stöðum til viðbótar í Kína um helgina, þar á meðal í einu hverfi í borginni Harbin. Þar fer þessa dagana fram vinsæl sýning á ísskúlptúrum sem alla jafna dregur að sér fjölmargt ferðafólk.