Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Man ekkert eftir það, nema að þetta var ekkert spes“

Mynd: EPA-EFE / EPA POOL

„Man ekkert eftir það, nema að þetta var ekkert spes“

18.01.2021 - 22:10
„Ég bara keyri þarna inn í fintu og síðan fæ ég bara högg beint í smettið,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson um brotið á honum í leiknum gegn Marokkó í kvöld. Hann er sáttur með sigurinn og segir Viggó Kristjánsson hafa verið stórkostlegan í kvöld.

Ísland vann með átta marka mun 31-23 en Marokkó byrjaði af krafti. „Eins og þú sást var þetta mjög erfitt í byrjun. Við vissum að það myndi taka smá tíma að komast inn í leikinn og við höfum bara séð það á videofundunum að öll liðin eru búnir að vera í bölvuðu basli með þetta lið. Eins og Portúgalarnir voru að tapa með hátt í fimm mörkum gegn þessu liði og komust ekki í gang fyrr en eftir fjörtíu mínútur,“ sagði Gísli Þorgeir eftir leikinn í kvöld.

„En að leiða með fimm mörkum í hálfleik var mjög gott en mér fannst við gera þetta ágætlega vel miðað við að þetta marokkóska lið er bara alls ekki eins auðvelt og margir halda.“

Marokkó las þetta kerfi ykkar ágætlega sem gekk svo vel upp á móti Alsír?
„Það er auðvitað það sem handbolti snýst um oft á tíðum, þetta er bara skák. En við leystum þetta mjög vel, til dæmis með því að Viggó gat oft farið einn á einn og hann gerði það frábærlega í dag og var stórkostlegur í dag,“ sagði Gísli.

Marokkóska liðið fékk þriðja rauða spjaldið í lokin þegar brotið var á Gísla Þorgeiri og hann fékk þungt högg í andlitið. „Ég bara keyri þarna inn í fintu og síðan fæ ég bara högg beint í smettið og síðan veit ég ekkert hvert boltinn fór eða hvað gerðist eftir það en ég man bara ekkert eftir það, nema að þetta var ekkert spes,“ sagði Gísli Þorgeir.

Viðtalið við Gísla má sjá í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Handbolti

„Gaman að sjá hann hamra hann upp í skeytin“

Handbolti

Viggó: „Ég sá eiginlega höggið koma“