Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Loðna á stóru svæði undan Austfjörðum

18.01.2021 - 11:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þrjú veiðiskip voru send til loðnumælinga undan Austfjörðum í gær eftir að töluvert sást af loðnu þar við landgrunnskantinn. Talið er að þetta getir verið viðbót við þá loðnu sem mældist í rannsóknaleiðangri fyrr í mánuðinum.

Fréttir bárust frá togurum að talsvert af loðnu væri á miðunum undan Austfjörðum. Mbl.is sagði fyrst frá því að Hafrannsóknastofnun hafi beðið áhöfn Víkings AK, sem var á landleið af kolmunnamiðunum, að fara yfir svæðið og staðfesta þessar fregnir. Þær reyndust réttar og í kjölfarið ákvað Hafrannsóknastofnun að hefja frekari leit.

Þrjú skip fóru frá Austfjörðum í gær

Samið var við útgerðir þriggja veiðiskipa og fóru þau til mælinga frá Austfjörðum síðdegis í gær. Þetta eru grænlenska skipið Polar Amaroq, Ásgrímur Halldórsson SF og Bjarni Ólafsson AK. Um borð í tveimur skipanna eru starfsmenn frá Hafrannsóknastofnun.

Vilja vita hvort þetta er viðbót við síðustu mælingu

„Tilgangurinn er að mæla hversu mikið þarna er á ferðinni og hvort þetta er einhver viðbót við það sem var verið að mæla um daginn,“ segir Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar. Í loðnuleiðangri fimm skipa sem lauk í byrjun síðustu viku fannst loðna með landgrunnskantinum norður af landinu allt austur að Langanesdýpi. Þá sást hinsvegar engin loðna undan Austurlandi.

Mæla á stóru svæði undan Austfjörðum

Skipin byrjuðu mælingar undan Suðausturlandi og munu þaðan fikra sig norður með Austfjörðum. „Tvö skipin fóru frá Reyðarfirði og fóru þaðan suður úr, en þeir á Ásgrími fóru frá Hornafirði. Okkar fólk flaug austur í gær,“ segir Sigurður.  „Ásgrímur og Polar mæla, en Bjarni á að afmarka hvar loðnan er. Þannig nýtist tíminn betur til mælinga. Það eru ekki komar neinar fréttir frá þeim ennþá.“

Vona að næg loðna mælist svo hægt verði að leyfa veiðar

Sigurður segir að veðurspáin bendi til þess að ekki verði hægt að mæla nema fram í miðja vikuna. „Við sjáum ekki nema 2-3ja daga veðurglugga núna, það skammtar okkur tímann. Veðrið á að versna á miðvikudaginn og þar með sjólagið. Við vonumst til að ná utan um þetta á þeim tíma og auðvitð erum við að vona að þarna sé næg til að hægt verði að leyfa veiðar.“

Hafís hindrar enn mælingar á Grænlandssundi

Hafís náði yfir stóran huta rannsóknasvæðisins fyrr í mánuðinum og tafði verulega mælingar þá. Það er enn ís yfir stóru svæði á Grænlandssundi en Sigurður segir vel fylgst með því svæði. Rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson séu tilbúin að fara af stað með skömmum fyrirvara ef aðstæður batni. Hinsvegar hafi þótt of langt að sigla þeim í þennan leiðangur undan Austfjörðum.