Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Líneik Anna vill leiða Framsókn í Norðausturkjördæmi

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Líneik Anna Sævarsdóttir þingkona Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi vill leiða lista flokksins í kjördæminu í Alþingiskosningunum í haust. Líneik skipaði annað sæti listans á fyrir kosningarnar 2017 á eftir Þórunni Egilsdóttur sem gefur ekki kost á sér á ný.

Líneik Anna hefur þingmaður síðan 2013 með hléi milli kosninganna 2016 og 2017. Í tilkynningu til fjölmiðla segir Líneik Anna að baráttumál hennar séu jafnrétti og jafnræði íbúa landsins og góðar samgöngur bæði í raunheimum og netheimum. Hún er menntaður líffræðingur og búsett í Fjarðabyggð.

„Samgöngur eru lykill að tækifærum og árangri í samfélagsþróun. Sjálfbær nýting náttúruauðlinda er grundvöllur íslensks efnahagslífs og því  þarf samspil manns og náttúru að vera viðvarandi viðfangsefni stjórnmálanna,“ segir í tilkynningunni.

Líneik segist vera tilbúin til að fást við öll þau verkefni sem samfélagið stendur frammi fyrir hverju sinni. Hún segir að stærsta verkefnið framundan sé að fjölga störfum og styrkja atvinnulífið í kjölfar COVID-19 farsóttarinnar.

Framsóknarflokkurinn kýs í sex efstu sæti framboðslista í Norðausturkjördæmi með póstkosningu í marsmánuði.