Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ísland hafði betur gegn grófu liði Marokkó

epa08947242 Bjorn Gudjonsson (C) of Iceland in action during the match between Iceland and Morocco at the 27th Men's Handball World Championship in Cairo, Egypt, 18 January 2021.  EPA-EFE/Khaled Elfiqi / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL

Ísland hafði betur gegn grófu liði Marokkó

18.01.2021 - 19:00
Ísland hafði betur 31-23 gegn Marokkó í lokaleik liðanna í F-riðli. Með sigrinum fer Ísland með tvö stig í milliriðil.

Íslenska liðið tryggði sér annað sætið í F-riðli með sannfærandi 31-23 sigri á Marokkó í F-riðli. Marokkó fékk þrjú bein röð spjöld í leiknum fyrir ruddaleg varnarbrot, eitt í fyrri hálfleik og tvö í þeim seinni. Staðan var 15-10 fyrir Íslandi í hálfleik en Viggó Kristjánsson var öflugur í upphafi og gerði 5 af fyrstu 11 mörkum íslenska liðsins.

Íslenska liðið hélt svo ótrautt áfram í seinni hálfleik en Marokkóarnir voru þó aldrei langt undan. Þegar seinni háfleikur var hálfnaður var munurinn enn 5 mörk 23-18. Íslenska liðið kláraði þó leikinn sannfærandi og vann að lokum með átta marka mun 31-23.

Kristján Örn Kristjánsson þreytti frumraun sína á stórmóti með landsliðinu í leiknum og gerði tvö mörk í lokin. Markahæstir í liði Íslands voru þeir Ólafur Guðmundsson og Viggó Kristjánsson með sex mörk hvor. Þá varði Björgvin Páll Gústavsson fjórtán skot í íslenska markinu og þar af eitt víti.

Ísland náði sér því í fjögur stig í F-riðli í öðru sætinu en Portúgal lauk keppni með 6 stig, fullt hús stiga. Ísland fer því með tvö stig í milliriðil en Portúgal fjögur. Ísland fer í milliriðil með Sviss, Frakklandi og Noregi.