Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

HSÍ: Aron fór sannarlega í læknisskoðun

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RUV

HSÍ: Aron fór sannarlega í læknisskoðun

18.01.2021 - 12:08
Handknattleikssamband Íslands sendi frá sér yfirlýsingu í hádeginu í dag vegna frétta í sænskum fjölmiðlum um að Aron Pálmarsson hafi ekki verið skoðaður af læknum landsliðsins áður en hann dró sig út úr landsliði Íslands fyrir HM.

Thomas Svensson, markmannsþjálfari íslenska liðsins og fyrrum landsliðsmaður Svíþjóðar, var í viðtali við app sænska handboltasambandsins og þar sagði hann að Aron hefði ekki verið skoðaður af læknum íslenska liðsins áður en hann dró sig út úr landsliðshópnum fyrir HM. Sænski blaðamaðurinn Johan Flinck greindi frá þessu á Twitter.

HSÍ sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem segir að Svensson hafi misskilið og hafi beðist afsökunar á því. 

Yfirlýsing HSÍ: 
Vegna fréttar á Vísir.is þar sem vitnað er í ummæli Tomas Svensson um meiðsli Arons Pálmarssonar vill HSÍ koma eftirfarandi á framfæri.

Aron var sannarlega skoðaður af læknum landsliðsins eins og fram kemur í tilkynningu HSÍ frá 2. janúar sl. og var staðfest að hann meiddur á hné og óleikfær.

Ummæli Tomas eru byggð á miskilningi og hefur hann beðist afsökunar.

HSÍ hefur verið í ágætis samskiptum við Barcelona vegna meiðslanna og harma ummælin.