Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hádegisfréttir: Brýnt að björgunarfólk sé í forgangshóp

18.01.2021 - 12:13
Varðstjóri hjá lögreglunni á Ísafirði segir að banaslys sem varð í Skötufirði á laugardag gefi til kynna hve brýnt sé að viðbragðsaðilar séu settir framarlega í forgangsröð um bólusetningu. Tuttugu manns fóru í sóttkví eftir slysið.

Hádegisfréttir verða sagðar klukkan 12:20.

Varnarmálayfirvöld í Bandaríkjunum óttast mögulega innanbúðarárás á Joe Biden verðandi forseta eða aðra gesti við innsetningarathöfn í Washington á miðvikudag. Bandaríska alríkislögreglan ætlar að rannsaka bakgrunn allra 25 þúsund þjóðvarðliðanna sem standa þar vaktina. 

Fjórir greindust með kórónuveirusmit innanlands í gær, þar af voru tveir í sóttkví. Sex smit greindust við landamærin, þar af voru tveir með virkt smit. 

Í einu af þeim fimm andlátum sem urðu skömmu eftir  kórónuveirubólusetningu, er ekki hægt að útiloka orsakatengsl. Þetta segir Alma D. Möller landlæknir að athugun á vegum embættisins hafi leitt í ljós. Fresta ætti bólusetningum hjá þeim sem væru með bráð einkenni, hita eða sýkingu. 

Þess er krafist á Vesturlöndum að Rússar láti stjórnarandstæðinginn Alexei Navalny lausan þegar í stað. Hann var handtekinn við komuna til Moskvu í gær. 

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í morgun kröfu Erlu Bolladóttur um að fimm lögreglumenn sem leiddu rannsóknina í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu verði látnir bera vitni í máli hennar gegn ríkinu. 

Yfir nítján milljónum Kínverja hefur verið skipað að halda sig heima til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar í norðausturhluta landsins. 

Skynsamlegt er að hefja sölu á hlut í Íslandsbanka því mun minni óvissa er núna en var fyrir ári þegar hætt var við sölu á bankanum, segir aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Forseti ASÍ segir að óvissan sé enn þá of mikil.

Veturinn hingað til hefur verið mjög snjóléttur hér á landi, og snjókoma í desember var langt undir meðaltali bæði í Reykjavík og á Akureyri.

Ísland mætir Marokkó í lokaleik sínum í riðlakeppni heimsmeistaramóts karla í handbolta í Egyptalandi í kvöld. Sigur í leiknum tryggir Íslandi sæti í milliriðli með tvö stig.

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV