Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Gaman að sjá hann hamra hann upp í skeytin“

Mynd: RÚV / RÚV

„Gaman að sjá hann hamra hann upp í skeytin“

18.01.2021 - 21:48
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands, var að vonum ánægður með sigurinn gegn Marokkó í kvöld. Hann segist fegnastur því að enginn hafi meiðst í leiknum og var ánægður með fraumraun Kristjáns Arnar Kristjánsson.

Ísland vann Marokkó með 31 marki gegn 23. Guðmundur segir að leikurinn hafi verið nákvæmlega eins og hann hafi átt von á. „Ég vissi að þetta yrði erfitt, ég vissi að það myndi taka okkur tíma að komast inn í leikinn og finna jafnvægið varðandi sóknarleikinn og komast á ferðina og það tók okkur smá tíma að hrista þetta af okkur. En eftir það í fyrri gekk þetta frábærlega opnuðum þetta mjög vel ítrekað. Varnarlega var þetta svipað og ég bjóst við, þeir spila óvenjulega og það er ofboðslegur hraði á þeim og þetta er ekkert einfalt sko og ég bara bjóst við þessu,“ sagði Guðmundur eftir leikinn.

Marokkó fékk þrjú bein röð spjöld í leiknum fyrir gróf brot. „Það sem ég er fegnastur með núna er að enginn af okkar leikmönnum skyldi slasa sig. Þetta var hroðalega grófur leikur af þeirra hálfu, ítrekuð gróf brot og ég er bara feginn að það hafi enginn meiðst í þessum leik,“ sagði Guðmundur jafnframt.

„Við förum fullir sjálfstrausts í þetta verkefni“

Ísland fer með tvö stig inn í milliriðil með Sviss, Frakklandi og Noregi. „Þetta er rosalega erfiður milliriðill og góð lið sem við erum að fara glíma við. Sviss er búið að spila frábærlega í þessari keppni sem dæmi og er bara með mjög sterkt lið. Hver einasti leikur verður virkilega erfiður, við samt förum fullir sjálfstrausts í þetta verkefni og við sjáum bara hvað setur og seljum okkur dýrt,“ sagði Guðmundur.

Hann segir margt gott í leik íslenska liðsins. „Við erum með tiltölulega stöðuga vörn og eigum að geta spilað góða vörn áfram. Sóknarleikurinn hefur gengið yfirleitt mjög vel en auðvitað eru andstæðingarnir öðruvísi ég skal játa það. En við þurfum að laga að skora meira úr hröðum upphlaupum mér finnst okkur vanta nokkur mörk þar í dag sem ég hefði viljað sjá. Við þurfum að fara yfir það hvernig við getum bætt það,“ segir hann.

Markaskorunin dreifðist vel hjá íslenska liðinu í dag og segir Guðmundur það  afar ánægjulegt. Sérlega ánægjulegt hafi hins vegar verið að Kristján Örn Kristjánsson hafi gert tvö mörk í fraumraun sinni með íslenska liðinu á stórmóti. „Þetta er að dreifast vel og við erum að fá mörk fyrir utan. Donni með tvö upp í vinkilinn það var nú sérstaklega ánægjulegt. Við stilltum nú upp fyrir hann í leikhléinu,“ sagði Guðmundur léttur að lokum.

Viðtalið við Guðmund má sjá í heild í spilaranum hér að ofan.