Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fjölmargir vilja komast framar í forgangsröðina

18.01.2021 - 15:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ef orðið yrði við beiðni allra um að vera framar í forgangsröðinni eftir bólusetningu myndu eldri og viðkvæmari hópar færast aftar í röðina. Þetta segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Fjölmargir hafi gert tilkall til þess að vera í forgangi.

Varðstjóri hjá lögreglunni á Ísafirði sagði í fréttum að aðstæður viðbragðsaðila við banaslys sem varð í Skötufirði á laugardag gefi til kynna hve brýnt sé að bólusetja þá. Tuttugu fóru í sóttkví eftir slysið. Hann benti á að þörf sé á að endurskoða forgangsröð í bólusetningu.

Mörg erindi af því tagi hafa borist sóttvarnalækni. „Ég er búin að fá erindi um þettta. Viðbragðsaðilar voru bólusettir sem eru hér á höfuðborgarsvæðinu sjúkraflutningamenn og lögregla og líka á suðurnesjum þannig að á þessum tímapunkti þá erum við ekki með meira af bóluefni til að halda áfram.“

Forgangsröðin helgist af því hvað mikið sé til af bóluefni.  „En ég bara bendi á það að mjög margir eru að gera tilkall til þess að vera í forgangi og ef við tækjum það allt til greina þá myndu eldri íbúar þessa lands ýtast niður. Ég bara bendi fólki á það á meðan við höfum ekki meira af bóluefni og fólk vill troðast framar að þá erum við að ýta viðkvæmasta hópnum okkar sem eru eldri einstaklingar niður.“
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV