Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fjarskiptasamband í Djúpi á að vera tryggt á þessu ári

Samgönguráðherra segir stórt verkefni að bæta fjarskiptasamband á þjóðvegum landsins. Mælingar sýna að samband í Skötufirði var slitrótt þegar banaslys varð þar á laugardag.

Kona á þrítugsaldri lést eftir að fjölskylda hennar lenti í slysi í Skötufirði á laugardag. Frystu vegfarendur sem komu að slysinu þurftu að aka áfram til þess að komast í símasamband. Samkvæmt Neyðarlínunni á samband alla jafna að vera við slysstað, en mælingar Póst- og fjarskiptastofnunar sýna að það var slitrótt þegar slysið varð. Hægt var að ná sambandi aðeins 100 metrum frá. Þetta er sjaldgæft, að sögn Neyðarlínunnar.

Samband á að vera tryggt á þessu ári

Unnið hefur verið að því að bæta fjarskiptatengingu í Djúpinu síðustu ár, í fyrra var þremur sendum bætt við í Ísafjarðardjúpi. á hefur fjórum milljónum verið ráðstafað úr Fjarskiptasjóði til þess að setja upp nýjan sendi í Skötufirði næsta sumar. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra segir þó mögulegt að það gerist fyrr. 

„Neyðarlínan sem vinnur að þessu fyrir okkar hönd hafði fyrirhugað fyrir nokkru að fara í næstu viku og kanna aðstæður. ef þeir velja stað þá gæti verktaki tekið til við framkvæmd eftir því hvernig veður og aðrar aðstæður leyfa.“

Með því ætti farsímasamband að vera tryggt á þjóðveginum í Djúpinu. Víða um land eru þó enn gloppur. 

„Við byrjum á þessum aðalvegum og fjölfarnari vegum, en verkefnið er stórt og Ísland er stórt. Það er erfitt að koma fjarskiptum fyrir núna, en sem betur fer hafa tækniframfarir hjálpað okkur í því.“

Þjónusta Vegagerðarinnar með eðlilegum hætti

Færð á laugardag var með versta móti og hálka svo mikil að það tók sjúkrabíla um klukkustund að keyra áttatíu kílómetra að slysstað. Á laugardögum á vegurinn í Djúpi að vera opinn frá 11 til 19. Eingöngu er hálkuvarið í kröppum beygjum, en ekki á beinum vegarköflum. 

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum frá Vegagerðinni voru menn að fylgjast náið með. Það er bara þannig á þessum tíma á Íslandi að aðstæður geta breyst mjög skyndilega og þær gerðu það.“