Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áratugur endurheimtar vistkerfa

18.01.2021 - 21:48
Mynd: Wikimedia commons / Wikimedia commons
Hafdís Hanna Ægisdóttir plöntuvistfræðingur skrifar um mikilvægi þess að heimsbyggðin vinni að endurheimt líf- og vistkerfa sem hafa verið tekin undir iðnað síðustu áratugi.

Komið að því

Við eigum langt ferðalag að baki og það hefur gengið á ýmsu. Sumir dagar ferðalagsins hafa verið góðir. Við höfum lifað í sátt við menn og náttúru þó lífið hafi ekki alltaf verið dans á rósum. Upp á síðkastið hefur hins vegar slest upp á vinskapinn við móður náttúru. Eftir ára- og áratugalanga ofnýtingu okkar á gjöfum jarðar má sjá eydd og röskuð vistkerfi, útrýmingu tegunda og breytingar á loftslagi jarðarinnar. Og afleiðingarnar má sjá á fyrirsögnum fjölmiðla; öflugri skógareldar, sterkari fellibyljir og aukin skriðuföll svo fátt eitt sé nefnt.

En nú stöndum við á krossgötum.

Árið 2021 verður að vera árið sem mannkynið sættist við móður náttúru – sagði António Guterres aðalritari Sameinuðu þjóðanna í ræðu síðastliðinn mánudag – og það eru svo sannarlega orð að sönnu.

Valkostirnir eru skýrir og nú verðum við sem mannkyn að velja rétt. Velja betri framtíð fyrir afkomendur okkar.

2021- er árið sem við munum vonandi sigrast á kórónaveirunni, hafa gæfu til að læra af þeim áskornunum sem veiran hefur fært okkur og nýta okkur þann lærdóm til að takast á við enn stærri áskoranir – þeirri vá sem nú steðjar að lífríki, vistkerfum, loftslagi og okkar eigin velferð og tilvist.

2021 - árið sem skuldbindingar Parísarsamkomulagsins taka við að Kýótóbókuninni.

2021 - upphafsár eins mikilvægasta áratugar sem mannkynið hefur lifað.

Áratugar þar sem við þurfum að vinna saman að sameiginlegum markmiðum jarðarbúa að helminga losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu til að eiga möguleika á að ná svokölluðu kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Og hvað þýðir það? Jú, árið 2050 þurfum við að hafa náð jafnvægi milli losunar gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið og bindingar kolefnis í vistkerfum í gegnum ljóstillífun plantna og trjáa svo dæmi sé tekið – þannig að nettólosun sé núll.

Fyrir lok áratugarins höfum við einnig sett okkur metnaðarfull markmið um sjálfbæra þróun í tengslum við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Og áratugurinn 2021-2030 hefur síðast en ekki síst verið tileinkaður af Sameinuðu þjóðunum annars vegar sem áratugur hafrannsókna fyrir sjálfbæra þróun og hins vegar sem áratugur endurheimtar vistkerfa.

Og í dag langar mig að segja ykkur betur frá þeim síðarnefnda – Áratug Sameinuðu þjóðanna um endurheimt vistkerfa 2021-2030.

Heilsa og velferð allra í húfi

En byrjum á byrjuninni. Hver er skilgreiningin á endurheimt vistkerfa? Endurheimt vistkerfa snýst um að endurheimta vistkerfi sem hefur hnignað, skemmst eða eyðilagst með það að markmiði að endurheimta náttúruauð og getu vistkerfana til að veita margvíslega þjónustu eins og að miðla vatni og binda kolefni. Heilbrigð vistkerfi eru rík af lífverum, hafa frjósamari jarðveg og geyma meira kolefni en röskuð vistkerfi, svo fátt eitt sé nefnt.

Áratugur um endurheimt vistkerfa er leiddur af tveim undirstofnunum Sameinuðu þjóðanna; Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) og Landbúnaðar- og matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO). Sýn áratugarins um endurheimt vistkerfa fellur vel að orðum aðalritara Sameinuðu þjóðanna sem vitnað var í byrjun þessa pistils – að endurheimta samband mannkyns og náttúru með heilsu og velferð alls lífs á jörðinni að leiðarljósi, og er þá átt bæði við núverandi kynslóðir og þær sem á eftir koma.

Markmið áratugs um endurheimt vistkerfa er að koma í veg frekari hnignun vistkerfa og endurheimta þau vistkerfi sem nú þegar eru röskuð. Þá er átt við vistkerfi í hafi og á landi; graslendi, votlendi, skóga, vistkerfi innan borga- og bæja, landbúnaðarland og strandsvæði. Allar heimsálfur jarðar eru undir ásamt höfunum. Áratug endurheimtar vistkerfa er ætlað að vekja athygli á mikilvægi vistheimtar með fræðslu, brýna stjórnvöld til góðra verka og hvetja til samtals og samvinnu ólíkra aðila – bæði úr einkageiranum og þeim almenna.

En af hverju er mikilvægt að endurheimta röskuð vistkerfi eins votlendi, graslandi og skóga?

Kolefnisbinding og loftlagsvá

Á síðustu rúmum hundrað árum hefur orðið gríðarleg breyting á landnotkun í heiminum. Náttúruleg vistkerfi eins og óraskaðir eða lítt raskaðir skógar, graslendi og votlendi hafa minnkað til muna á kostnað ræktar- og beitilands, þéttbýlis og námuvinnslu. Skógar hafa verið hoggnir, votlendi ræst fram eða raskað á annan hátt og landeyðing aukist til muna.

Þessi hnignun sem orðið hefur á heilsu vistkerfa jarðarinnar hefur bein áhrif á velferð um 3,2 milljarða jarðarbúa sem er ¼ af íbúum jarðar. Í skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem kom út árið 2019 kemur fram að loftslagsbreytingar auka enn á landeyðingu með meiri ákafa í úrkomu og flóðum, tíðari og umfangsmeiri þurrkum og meira álagi vegna hita, vinds og ölduróts.

Tengsl lands og loftslags – ástands landvistkerfa við breytingar í loftslagi - eru ótvíræðar. Stærsti hluti kolefnisforða þurrlendis er í moldinni en moldin er annað stærsta kolefnisforðabúr heims á eftir hafinu. Þegar landi hnignar vegna ofnýtingar saxast á þetta mikla kolefnisforðabúr og kolefni losnar út í andrúmsloftið og eykur enn á hlýnun jarðar. Til að takast á við loftslagsvána og ná hinu margumtalaða kolefnishlutleysi er því afar mikilvægt að auka bindingu á kostnað losunar en það er gert meðal annars með því að stöðva jarðvegseyðingu, vernda náttúruleg vistkerfi fyrir frekari röskun og endurheimta röskuð vistkerfi með landgræðslu og skógrækt en jarðvegur og gróður bindur mikið magn kolefnis.

Og ekki má gleyma hafinu og mikilvægi þess að endurheimta þau vistkerfi hafsins sem nú þegar eru röskuð, eins og kóralrif og háplöntu- og þörungagróður á hafsbotni.

Ávinningur þess að endurheimta röskuð vistkerfi er ekki aðeins í formi kolefnisbindingar. Ávinningurinn er margþættur enda reiðum við okkur á vistkerfi jarðar á margvíslegan hátt. Heilbrigð vistkerfi eru forsenda lífs á jörðinni enda veita vistkerfin okkur þjónustu sem við getum ekki verið án, svo sem fæðunnar frá land- og sjávarvistkerfum og ferskvatnsins sem við neytum, byggingarefni til húsbygginga og hreinsunar andrúmsloftsins. Og ekki má gleyma fegurð heilbrigðra vistkerfa sem auðgar andann, hressir og kætir.

Hlutverk heilbrigðra vistkerfa sem mótvægi við náttúruvá á borð við flóð, skriður, storma, þurrk og elda er ekki síður mikilvægt. Til að mynda tekur heilbrigt vistkerfi þakið gróðri mun betur við vatni í flóðum samanborið við illa farið vistkerfi sem hefur orðið jarðvegseyðingu að bráð. Heilbrigða votlendið eða graslendið getur því hindrað tjón vegna flóða og skriðufalla.

Með því að endurheimta vistkerfi stuðlum við einnig að endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni en það hugtak er notað til að skilgreina margbreytileika lífsins, fjölbreytni tegunda eins og dýra og plantna, hvort sem er á jörðinni allri, í einstaka vistkerfum eins og í tjörn eða skógi eða erfðafræðilegan fjölbreytileika innan tegunda.

Líka á Íslandi

Já, mikilvægi þess að endurheimta vistkerfi er svo sannarlega mikið og ekki að undra að Sameinuðu þjóðirnar leggi nú höfuðáherslu á endurheimt á þessum áratug sem nú er að hefjast enda getur átak í endurheit vistkerfa hjálpað til við að minnka fátækt, mildað loftslagsbreytingar og komið i veg fyrir aldauða tegunda. Já, það er til mikils að vinna.

En hver er staðan á Íslandi? Er endurheimt vistkerfa mikilvæg hér á landi.

Í nýrri riti frá Landbúnaðarháskóla Íslands eftir Ólaf Arnalds og Jón Guðmundsson kemur fram að losun gróðurhúsalofttegunda frá landi vegna nýtingar og lélegs ástands votlendis og þurrlendis er mjög mikil – og meiri en öll önnur losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum á Íslandi. Tækifærin til að minnka losun frá landi með því að stöðva jarðvegsrof og endurheimta votlendi eru því gífurleg. Einnig eru mikil tækifæri hér á landi fólgin í því að binda gróðurhúsalofttegundir í jarðvegi og gróðri með landgræðslu og með því að endurheimta skógana okkar.

Það eru spennandi áratugur framundan.

Áratugur endurheimtar vistkerfa.

Áratugurinn sem við minnkum losun gróðurhúsalofttegunda til muna.

Áratugurinn sem við vinnum saman að lausnum - okkur og framtíðarkynslóðum til heilla.

Áratugurinn sem mannkynið sættist við  náttúruna.

Orð eru vissulega til alls fyrst – en nú er komið að efndum.

 

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárritstjórn