Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Allir búnir að senda inn uppfærð markmið, nema Ísland

Mynd með færslu
 Mynd:
Ísland er eitt örfárra Evrópuríkja sem ekki hafa skilað uppfærðum landsmarkmiðum í loftslagsmálum til Sameinuðu þjóðanna. Þetta má sjá á vef skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna UNFCCC.  

Parísarsamkomulagið frá árinu 2015 kveður á um að aðildarríki uppfæri landsmarkmið sín í loftslagsmálum á fimm ára fresti, þetta áttu ríkin að gera í fyrsta sinn árið 2020. Markmið samkomulagsins er að halda hlýnun jarðar innan við 2 gráður og helst innan við 1,5 til að stemma stigu við alvarlegum afleiðingum loftslagsbreytinga. 

Sendi síðast markmið árið 2016

Ísland á aðild að sameiginlegu markmiði Evrópusambandsríkja með Noregi. Öll Evrópusambandsríkin sendu Sameinuðu þjóðunum uppfærð landsmarkmið seint á síðasta ári og Noregur gerði það í febrúar. Ísland er því eina ríkið í hópnum sem ekki hefur sent inn uppfærð markmið.

Síðast skilaði Ísland áætluðum markmiðum sínum til skrifstofu Loftslagssamningsins árið 2016 en flest hinna Evrópuríkjanna hafa sent inn staðfest markmið, ekki áætluð og uppfært þau á síðustu mánuðum. 

Unnið að formlegri tilkynningu

Í desember í fyrra samþykkti Evrópusambandið að skerpa á markmiðunum, minnka losun um 55% fyrir árið 2030 miðað við viðmiðunarárið 1990 í stað 40% samdráttar sem áður var stefnt að. Íslensk stjórnvöld hafa í ljósi þessa lýst því yfir að hér verði metnaðurinn líka aukinn og tilkynntu um uppfærð markmið á sérstökum leiðtogafundi um loftslagsmál þann 12. desember. Áður hafði Ísland skuldbundið sig til að minnka losun um 29% miðað við árið 2005. Nú á samdrátturinn að verða meiri en það á eftir að semja við Evrópusambandið um hver hlutdeild Íslands í nýja markmiðinu verður nákvæmlega.

Í svari umhverfisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu, um hvers vegna uppfærð markmið Íslands hefðu ekki borist Loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, kom fram að unnið væri að formlegri tilkynningu um landsmarkmið Íslands með tilvísun í samflotið með Evrópusambandinu og Noregi. Hún verði send inn fljótlega.