
600 viðbótarskammtar gætu leynst í nýju sendingunni
„Sprauturnar og nálarnar sem við þurfum til að ná sex skömmtum úr hverju glasi eru komnar til okkar og mér skilst að við getum notað þær við bólusetningarnar síðar í vikunni,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, umdæmislæknir sóttvarna og framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Á vef Lyfjastofnunar segir að til þess að hægt sé að ná sex skömmtum úr glasinu sé nauðsynlegt að nota samsetningu sprautu og nálar þar sem pláss sem nýtist ekki er mjög lítið, eða í mesta lagi 35 míkrólítrar. Ef notaðar eru hefðbundar sprautur og nálar er ekki víst að hægt sé að ná sjötta skammtinum úr hverju hettuglasi.
Míkrólítri er einn þúsundasti af millilítra eða einn milljónasti af lítra.
Sigríður Dóra segir að nægilegt magn hafi borist af sprautunum og nálunum til að nota fyrir allt bóluefnið.
„Þetta er fagnaðarefni,“ segir hún. „Við erum tilbúin með næstu forgangshópa. Ef við náum fleiri skömmtum en sem þarf í þann hóp sem við erum að bólusetja núna í vikunni, höldum áfram að vinna okkur niður listann og förum í næsta hóp.“