
Víðtæk bólusetning getur dregið úr ótta við ferðalög
Efnahagsleg viðspyrna hérlendis mun næstu mánuði að miklu leyti ráðast af útbreiðslu bóluefnis, bæði hér á landi og í helstu viðskiparíkjum, að því er segir í skýrslunni.
Mikilvægt sé fyrir efnahagsbatann að tryggja að fólk viti hvenær bólusett verði þar sem hegðun þess breytist við vitneskjuna um að bóluefni sé komið fram. Starfshópurinn hvetur til að liðkað verði fyrir komu ferðamanna frá þeim löndum sem náð hafa tökum á faraldrinum.
Á hinn bóginn væri hægt að fara þá leið að fjöldi skimana hvers og eins verði í takt við litakóðunarkerfi almannavarna. Girða þurfi fyrir tilslakanir til handa ferðamönnum frá áhættulöndum en þannig geti ferðaþjónustan frekar boðið áhættuminni ferðir til landsins.
Mikilsvert sé fyrir hvern og einn að losna úr viðjum faraldursins með bólusetningu en erfitt verði að hafa hagkvæmasta fyrirkomulag á sóttvarnaraðgerðum á meðan enn eru fremur fáir bólusettir.
Eftir því fleiri sem fái bóluefni, sér í lagi viðkvæmasti hópurinn, ætti að mega draga úr sóttvörnum. Aflétting þeirra gæti þó tafist vegna tilkomu meira smitandi afbrigða kórónuveirunnar.