Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ungur Færeyingur ein auðugasta rafíþróttastjarna heims

17.01.2021 - 14:19
epa06296782 The team 'Virtus Pro' competing in the ESL One event in the Barclaycard Arena Hamburg, Germany, 29 October 2017. Reports state that two invited teams and 6 qualified teams will battle it out for a 1,000,000 US dollar prize pool and the most valuable player at the ESL One Hamburg Dota 2 tournament will take home a brand new Mercedes-Benz car worth 50,000 US dollars. ESL One Hamburg is the first Dota 2 Major of the new season. Dota 2 is a multiplayer online battle arena, played in matches between two teams of five players, with each team occupying and defending their own separate base on the map.  EPA-EFE/DAVID HECKER
 Mynd: EPA
Ein auðugasta rafíþróttastjarna heims er 27 ára gamall Færeyingur, Johan Sundstein að nafni, en hann er betur þekktur í rafíþróttaheiminum undir heitinu N0tail.

Frá því er greint á færeyska fréttamiðlinum Local að Sundstein er fæddur í Danmörku, foreldrar hans eru færeyskir en afi hans er Jógvan Sundstein, fyrrverandi lögmaður Færeyja.

Sundstein er fyrirliði liðsins OG sem keppir í tölvuleiknum Dota 2 sem varð heimsmeistari tvö ár í röð, 2018 og 2019. Heimsmeistaramótið, sem gengur undir heitinu The International, féll niður vegna kórónuveirufaraldursins á síðasta ári.

Velgengni Sundsteins í leiknum hefur tryggt honum sigurlaun sem nema 7,4 milljónum Bandaríkjadala eða jafngildi 960 milljóna íslenskra króna.

Á vef breska ríkisútvarpsins er fjallað um kaup Sundsteins á 17 herbergja setri í Lissabon, höfuðborg Portúgal, og hvernig hann og félagar hans undirbúa sig fyrir keppni í rafíþróttum.

Dota 2 er rauntímaherkænskuleikur frá árinu 2013 þar sem tvö fimm manna lið takast á. Hann byggir á leikjunum „The Defense of the Ancients (DotA) Warcraft III: Reign of Chaos“ og „Warcraft III: The Frozen Throne mod“.