
Umfangsmikil bólusetningarherferð hafin á Indlandi
Um 1,3 milljarður manna býr í Indlandi, og því ærið verk framundan. Byrjað verður á að bólusetja um tíu milljónir heilbrigðisstarfsmanna, svo verður bólusett lögreglumenn, hermenn og aðra framlínustarfsmenn. Að því loknu verða allir yfir fimmtugt bólusettir, auk yngra fólks með alvarleg undirliggjandi heilsufarsvandamál.
Fólk gæti áfram að sóttvörnum
Forsætisráðherrann Narendra Modi flutti ávarp áður en herferðin hófst. Hann sagði þetta sýna heiminum hvers Indverjar eru megnugir. Yfir tíu milljónir hafa greinst með COVID-19 á Indlandi. Aðeins hafa greinst fleiri í Bandaríkjunum.
Modi greindi frá því að fylgst verði með árangrinum í gegnum snjallsímaforrit. Þannig verði tryggt að enginn verði útundan, hefur fréttastofa BBC eftir honum. Hann hvatti fólk til þess að gæta áfram að sóttvörnum, til að mynda með því að bera grímu og halda fjarlægð.
Óvissa um annað bóluefnið
Indverska lyfjaeftirlitið hefur gefið leyfi fyrir báðum lyfjum. Covishield er nafnið sem Indverjar gáfu bóluefninu frá Oxford háskóla og AstraZeneca. Covaxin er framleitt af indverska lyfjafyrirtækinu Bharat Biotech. Einhverjir hafa lýst áhyggjum yfir virkni þess síðarnefnda, þar sem leyfið var gefið áður en niðurstöður þriðja hluta prófana hafa litið dagsins ljós. Bæði eftirlitið og framleiðandinn segja bóluefnið þó öruggt, og niðurstöðurnar sýni fram á það þegar þær verða birtar í febrúar.