Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Risapíka veldur usla í Brasilíu

Mynd: julianotari / julianotari

Risapíka veldur usla í Brasilíu

17.01.2021 - 11:55

Höfundar

Þrjátíu og þriggja metra löng píka hefur vakið umtal í Brasilíu. Listakonan vill varpa ljósi á valdaójafnvægi og misrétti en gagnrýnendur segja hana athyglissjúka.

Það er ekki oft sem fréttir berast af nýjum listaverkum í Suður-Ameríku. En eitt slíkt hefur nú valdið slíkum usla að fréttirnar hafa borist í nær alla meginstraumsmiðla Vesturlanda og víðar. 

Verkið er útilistaverk, kallast Díva og er staðsett í almenningsgarði norður af Rio de Janeiro í Brasilíu. Umrædd Díva er 33 metra löng steypt kvensköp sem liggja áberandi í grænni hlíð í grösugum listaverkagarðinum. Málað í rauðleitum tónum grefur verkið sig ofan í jörðina og verður dekkra að lit því dýpra sem það fer niður. 

Höfundur Dívunnar, brasilíska listakonan Juliana Notari, hefur staðið í ströngu undanfarna daga við að svara fyrir verkið sem var afhjúpað stuttu eftir áramót. Hún segir að það sé fyrst og fremst tilraun til að ræða þau vandamál sem kynferði skapar og varpa ljósi á samskipti okkar mannanna sem oftar en ekki gera lítið annað en að skapa ójafnrétti og óreiðu.

Það er óhætt að segja að með verkinu hafi Notari einmitt tekist þetta, því umtalið sem verkið hefur vakið einkennist fyrst og fremst af árásum karlmanna í garð listakonunnar. Samtalið um útilistaverkið hefur einnig fléttast inn í umræðu um lögleiðingu þungunarrofs, en nágrannaríkið Argentína lögfesti réttinn til þungunarrofs rétt fyrir áramót. Við það tækifæri sagðist Bolsonaro, forseti Brasilíu, finna til með öllum ófæddum börnum Argentínu og að þungunarrof yrði aldri leyft í hans landi á hans vakt.  Brasilía er stærsta kaþólska ríkið í heiminum og þar hafa konur aðeins rétt á þungunarrofi í tilfelli nauðgunar og sifjaspells og ef líf móður er í hættu. Og þar eru einnig framin flest ólögleg þungunarrof í heimi. 

Bolsonaro er ekki bara á móti kvenréttindum heldur réttindum flestra minnihlutahópa auk þess sem gagnrýnendur hans segja hann vera svarinn óvin listarinnar. Listakonan segir gagnrýnisraddir aldrei hafa verið þarfari. Það sé ekki bara valdaójafnvægið milli kynja sem hún vilji sýna fram á heldur líka milli manns og jarðar sem sé því miður stjórnað af mannmiðaðri sýn Vesturlanda. 

Það kemur kannski ekki á óvart að fylgjendur Bolsonaros séu ekki hrifnir af verkinu og að þeir hafi viðrað hatursfullar skoðanir sínar í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Einn gagnrýnandi verksins, maður á sjötugsaldri og einn af hugmyndafræðingum flokks Bolsonaros, Olavo Carvalho, deildi einkar ósmekklegu, en einnig því miður mjög svo fyrirsjáanlegu, tísti um verkið. Hann sagðist ekki skilja af hverju fólk væri að ræða þetta, skúlptúrinn þyrfti augljóslega, „að díla við“ á annan hátt, það þyrfti að díla við hann með 33 metra löngu tippi. 

Í viðtölum hefur Notari sagst hafa vonast eftir umræðu en hún hafi ekki búist við slíku hatri. Auk þess að vera gagnrýnd fyrir verkið sjálft hefur hún verið gagnrýnd fyrir að vera hvít kona með láglaunafólk í vinnu við að steypa risastóra píku, fyrir að vera athyglissjúk, og fyrir að gagnrýna feðraveldið en gleyma því að hún er sjálf í forréttindastöðu miðað við aðra í heimi hér. Hún hefur eiginlega verið gagnrýnd fyrir allt sem hægt er að gagnrýna en hún hefur líka fengið lof og stuðning frá listafólki Brasilíu. Brasilíski kvikmyndaleikstjórinn Kleber Mendonca Filho hefur til að mynda hrósað Notari fyrir að tala til öfgahægrisins á svo viðkvæmum tímum og bent á að viðbrögð hatursfulla hægrisins séu ekkert annað en spegill á ástandið.

Ekkert af þessu kemur svo sem á óvart en það er samt sem áður svo óskaplega undarlegt, nú á tímum endalauss upplýsingaflæðis og áreitis í alls konar miðlum og á tímum þegar klám hefur aldrei verið jafn aðgengilegt, að skúlptúr í formi píku í grösugri hlíð í almenningsgarði í norðausturhluta Brasilíu skuli fá svo háværa umræðu að öll heimsbyggðin verði þess vör. 

Við erum svo vön því að sjá reðurtákn í öllum hornum að við erum hætt að taka eftir þeim en þegar rauð hola er grafin í gras þá bara fer allt á hliðina. Það er eitthvað við þennan líkamspart sem fær fólk til að fara í kerfi, eiginlega jafn mikið kerfi núna og þegar Courbet málaði kvensköp, nefndi þau Upphaf alheimsins og sýndi hneyksluðum góðborgurum á sýningu árið 1886 í París. 

Það er svo augljóst að okkur hefur verið kennt að finna til blygðunar andspænis þessu tiltekna líffæri á meðan reðurtáknið er svo hversdagslegt að hvert mannsbarn kann að lesa í auglýsingar þar sem fagrar konur sleikja íspinna af einskærri nautn án þess að roðna eða reiðast. Kvensköp eru auðvitað sýnilegri í myndlist í dag, Kristín Gunnlaugsdóttir er okkar nærtækasta dæmi um það, og það er hægt að rifja upp verk frá síðustu öld, verk listakvenna á borð við Georgiu O’Kieffe, Judy Chicago, Hönnuh Wilke eða Mikelene Thomas. 

En þrátt fyrir aukinn sýnileika vekja kynfæri kvenna enn reiði og hneykslan og þykja enn vera miklu gróteskari en kynfæri karla. Árið 2012 varð allt vitlaust í Frakklandi þegar Facebook lokaði aðgangi listasögukennara sem deildi Upphafi alheimsins eftir Courbet með nemendum sínum. Kvensköp eru til staðar í listasögunni en það þarf að leita þau uppi, þau eru ekki fyrir allra augum líkt og kynfæri karla. Við getum leitað langt aftur og fundið einstaka hellamyndir sem taldar eru sýna kvensköp, þau frægustu sennilega  í Cantabríu á Spáni. Á miðöldum var nokkuð um gróteskar myndir af líkamspörtum utan á kirkjum en í samanburði við líkamsparta karla eru þetta örfá dæmi. 

Einhver áhugaverðustu  dæmin um kvensköp í miðaldalist eru svokallaðar Sheela Na Gig. Það eru kerlingar hoggnar í stein sem hafa opið hringlaga form um sig miðja sem þær oft taka í og opna með höndunum, gróteskar myndir ættaðar frá Írlandi og Bretlandseyjum sem finnast víðar um Evrópu en talið er að þeim hafi að mestu verið eytt. Eins og margir listfræðingar hafa bent á urðu kvensköp með tímanum tákn um eitthvað klúrt og dónalegt á meðan kynfæri karla urðu það ekki. Þvert á móti. Jane Caputi lýsir því í bók sinni, Gyðjur og skrímsli, að á meðan reðurtáknin fengu guðastatus hafi kynfærum kvenna verið útrýmt og táknmynd þeirra tengd við dónaskap, skömm og groddaskap.

Við þurfum ekki annað en að heimsækja eitthvert af stóru söfnunum í Evrópu og ganga milli klassískra verka til að sjá muninn. Grísku gyðjurnar líta allar út eins og Barbídúkkur að neðan en karlarnir minna ekkert á Ken. Þeir, ólíkt konunum, eru allir með kynfærin á sínum stað. 

Það þarf reyndar alls ekkert að ganga um íburðarmikla sali virðingarþrunginna safna til að sjá reðurtákn og kynfæri karla um allt, það þarf ekki að fara lengra en á næsta almenningssalerni til að sjá typpi upp um alla veggi. Ég man alla vega í fljótu bragði ekki eftir neinu píkuveggjakroti. Það gefur alveg tilefni til að staldra aðeins við og pæla í hversu mikið sú staðreynd hefur að segja. Ekki síst í ljósi þess að við eigum jú, langflest, líf okkar einni slíkri að þakka.

Tengdar fréttir

Myndlist

Píkurósir á dekkjaverkstæðinu

Myndlist

Píka er tabú þar til hún hættir að vera tabú