Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Le Drian hefur áhyggjur af Íran

17.01.2021 - 04:45
epa08938599 A handout photo made available by the Iranian Revolutionary Guard Corps (IRGC) official website (Sepahnews) shows, missiles prepare launch during a military drill in an unknown location, central Iran, 15 January 2021. Media reported that Iran has tested its new generation of missiles and drones during the drill. Following tensions between Iran and US, Iranian IRGC  began a missile drill in the central desert of Iran.  EPA-EFE/SEPAHNEWS / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - SEPAHNEWS
Franski utanríkisráðherrann Jean Yves Le Drian hefur áhyggjur af því að Íranir séu að koma sér upp kjarnvopnum. Hann kallar eftir því að stjórnvöld í Teheran og Washington taki aftur upp kjarnorkusamninginn frá árinu 2015.

Fréttastofa Reuters hefur þetta eftir Le Drian. Íranir hafa fært auðgun úrans í aukana eftir að stjórn Donalds Trumps dró Bandaríkin úr samningi Írans við stórveldin. Fyrr í þessum mánuði hófust tilraunir í Íran til þess að auðga 20% kljúfanlegt úran í neðanjarðarkjarnorkuveri sínu í Fordow. Það er jafn langt og ríkið var komið með tilraunir sínar þegar samningar náðust um að Íran slakaði á.

Le Drian gagnrýnir aðgerðir Trump-stjórnarinnar. Hann segir hana hafa reynt að beita írönsku stjórnina harkalegum þrýstingi, en það hafi ekki skilað sér í öðru en meiri ógn og hættu. Þetta verði að stöðva því Íranir séu að vinna í því að koma sér upp kjarnavopnum.

Það gæti orðið hægara sgat en gert fyrir stjórn verðandi Bandaríkjaforseta, Joe Biden, að ganga aftur til samninga við Íran. Samhliða því að draga Bandaríkin einhliða úr samningnum árið 2018 lagði stjórn Trumps einnig harðar viðskiptaþvinganir á Íran. 

Biden hefur sjálfur sagst allur af vilja gerður við að taka samninginn aftur upp, ef Íranir eru tilbúnir að fylgja samningsatriðum. Erindrekar annarra aðildarríkja að samningnum segja Írani ítrekað hafa brotið gegn honum. Íranir segjast tilbúnir að gangast aftur við samningnum ef viðskiptaþvinganir gegn ríkinu verða dregnar til baka.