
Hefur ekki áhyggjur af frystingu lána í Íslandsbanka
Guðrún Johnsen hagfræðingur og lektor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn sagði í fréttum RÚV í vikunni að nú væri ekki góður tími til að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka. Hún sagði virði bankans óljóst, meðal annars þar sem 20% lánabókar hans væru í frystingu, 184 milljarðar, eða sem nemur eigin fé bankans.
„Ég held að þetta sé hluti af því sem fjárfestar hljóti að líta til og þarf að ræða í aðdraganda útboðslýsingar og við gerð hennar. En þetta er ekki atriði sem við höfum miklar áhyggjur af, þetta varðandi frystingarnar, þetta er auðvitað þannig að bankinn hefur gríðarlegan stryk til að standa með sínum viðskiptamönnum og vanskil í bankakerfinu eru hverfandi og hafa verið að lækka. Þannig að ég held að þetta sé banki sem er þegar á heildina er litið með mjög sterka stöðu og þetta sé ekki sérstakt áhyggjuefni,“ segir Bjarni Benediktsson.
Guðrún Johnsen sagði að við núverandi aðstæður væri ólíklegt að ríkið laðaði að fjárfesta sem hefðu áhuga á arðsemi venjulegrar bankastarfsemi. Meiri líkur væru á áhættusömum fjárfestum í anda þess þegar Baugur varð stór eigandi í Glitni. Bjarni segir að þetta lýsi mikilli vantrú Guðrúnar á skilvirku regluverki.
„Að vera að vísa í atburði sem áttu sér stað fyrir rúmum áratug í allt, allt öðru regluverki og benda á veikleikana sem þar brutust fram án þess að láta þess getið að við höfum farið markvisst í gegnum allt regluverkið og gjörbreytt því, tekist á við þessa veikleika, það finnst mér ekki innlegg sem skiptir neinu máli.“