Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjölmörg stjórnarfrumvörp framundan á kosningavetri

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Sóttvarnalög, sameining sveitarfélaga, fjölmiðlar og miðhálendisþjóðgarður er meðal frumvarpa ríkisstjórnarinnar sem bíða afgreiðslu Alþingis. Kosningavetur er framundan sem mun setja svip sinn á stjórnmálin og þingstörfin og landsfundir flokkanna, prófkjör og ákvörðun um lista bíða í röðum þegar líður á vorið.

Þingfundir hefjast á ný á morgun mánudag að loknu jólahléi og mun fjármálaráðherra flytja þinginu munnlega skýrslu um fyrirhugaða sölu á fjórðungshlut í Íslandsbanka og síðan fer fram umræða um hana.

Samkvæmt starfsáætlun á þetta þing að standa fram í júní og líkt og fyrir áramót setja sóttvarnaaðgerðir svip sinn á þingstörfin. Næg verkefni bíða þessa þings því mörgum stórum málum ríkisstjórnarinnar var frestað fyrir áramót eins og nokkrum málum barnamálaráðherra.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hlakkar til þingvetrarins. „Mig langar að nefna frumvarp um miðhálendisþjóðgarð bæði þessi mál komu inn í þingið fyrir jól en þau eru núna komin til nefndar og verða í umræðu eitthvað frameftir og síðan eru önnur stór mál framundan og ég gæti nefnt sem dæmi bara sameiningar sveitarfélaga sem samgöngu og sveitarstjórnarráðherra hefur dreift á þinginu.“  Að ógleymdum sóttvarnalögum sem eru til umfjöllunar í velferðarnefnd Alþingis.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður þingflokks Pírata, segir að fróðlegt verði að fylgjast með störfum ríkisstjórnarinnar sem virðist að hennar mati ekki geta komið sér saman um lykilatriði stjórnarsáttmálans.

„En það sem við ættum auðvitað að vera að ræða er framtíðin eftir COVID-19 hvernig við getum notað tækifærið núna til þess að byrgja brunninn og byggja upp til framtíðar á miklu umhverfisvænni hátt með nýsköpun að leiðarljósi,“ segir Þórhildur Sunna. Hún vonast til að lykilmál Pírata komist í höfn en það er afglæpavæðing á vörslu neysluskammta vímuefna.

Alþingiskosningar eru fyrirhugaðar í lok september og því blasir við að kosningar setji svip sinn á þingstörfin enda flokkar og frambjóðendur þegar í startholum þar sem hver stund athygli er dýrmæt.

En verður þetta átakaþing? Katrín Jakobsdóttir segist telja að þetta verði fínt þing. „Auðvitað setja kosningar framundan svip sinn á þingveturinn en ég hlakka bara til vetrarins ég held að þetta verði fínt þing.“

Þorhildur Sunna segist vona að tekist verði á um stóru málin. „Við séum ekki að kíta um einhver smáatriði sem engu skipta og að okkur verði ekki haldið hér í einhverju málþófi af mönnum sem hafa takmarkað annað að gera en að blaðra sig fulla.“