Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Dýrt og erfitt að koma á fullkomnu fjarskiptasambandi

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Vegfarendur sem komu fyrstir að banaslysi í Skötufirði í gær þurftu að aka áfram þar til símasamband náðist til þess að hringja á Neyðarlínuna. Forstöðumaður tæknideildar Póst- og fjarskiptastofnunar segir Vestfirði landfræðilega mjög erfiða.

Hjón og ungt barn þeirra voru í bílnum sem fór út af veginum og hafnaði í sjónum. Konan, Kamila Majewska, lést seint í gærkvöld á gjörgæsludeild en upplýsingar um líðan föður og barns hafa ekki verið gefnar í dag. Heimili þeirra er á Flateyri. Samfélagið þar er í sárum og var Flateyrarkirkja opin milli 14 og 16 í dag. Rannsókn á tildrögum slyssins stendur yfir og tekur einhverjar vikur að sögn Hlyns Snorrasonar yfirlögregluþjóns á Ísafirði. 

Hálka, krapi og stopult símasamband

Hálka og krapi töfðu fyrir björgunarliði á leið á slysstað í gær. Símasamband er stopult þarna og þeir fyrstu sem komu að skiptu með sér verkum þannig að annar fór að kanna aðstæður en hinn ók þar til hann komst í símasamband. Þorleifur Jónasson, forstöðumaður tæknideildar Póst- og fjarskiptastofnunar segir samband sé misgott í Skötufirði. „Nú þekki ég ekki alveg aðstæður sem voru þarna eða nákvæmlega staðsetningu á slysinu en samkvæmt okkar mælingum sem við höfum gert á þessum stöðum þá er samband á flestum stöðum í firðinum en misgott samt.“

Þorleifur segir ýmislegt hafa áhrif á sambandið. Loftnet í símum séu misjöfn, minna merki sé inni í bílum og ef síminn dettur úr sambandi geti tekið tíma að kom því á aftur. Þá nái stafrænar bylgjur ekki vel yfir holt og hæðir og hvað þá fjöll. Vestfirðir séu því erfitt svæði landfræðilega. 

Mynd með færslu
 Mynd: Loftmyndir - RUV
Bíllinn fór út af veginum í vestanverðum Skötufirði og hafnaði í sjónum.

Er kannski ekki hægt að búa þannig að um hnútana að það verði fullkomið fjarskiptasamband um allt land? „Það er auðvitað allt hægt  en það er mjög dýrt að ætla að koma á fullkomnu sambandi alls staðar á þjóðvegum landsins eða alls staðar þar sem við viljum hafa samband á landinu,“ segir Þorleifur.

Það væru þá stjórnvöld sem ættu að setja þá kröfu að bæta samband þar sem það er svona stopult? „Já almennu fjarskiptakerfin eru ekki skilgreind sem öryggisfjarskiptakerfi. Þannig að ef að það á að setja þær kröfur að það sé dekkun eða þekja alls staðar þá verða stjórnvöld að koma að einhverju leiti að því og hafa gert það. Fjarskiptafélögin hafa reyndar staðið sig vel og fara langt umfram þær kröfur sem hafa verið gerðar. En ég undirstrika þetta eru ekki öryggisfjarskiptakerfi.“