Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vegfarendur unnu þrekvirki á slysstað

16.01.2021 - 19:29
Mynd: Halla Ólafsdóttir / RÚV
Þriggja manna fjölskylda var flutt með þyrlum á sjúkrahús eftir að bíll þeirra hafnaði úti í sjó í Skötufirði við Ísafjarðardjúp. Mikill viðbúnaður var vegna slyssins og segir lögreglan að vegfarendur sem fyrstir komu á slysstað hafi unnið þrekvirki.

Tilkynnt var um slysið klukkan rúmlega tíu í morgun. Það gerðu vegfarendur sem fyrstir komu að. Slysið varð í vestanverðum Skötufirði við Ísafjarðardjúp. Þrennt var í bílnum, karl, kona og ungt barn þeirra. Bíll þeirra fór út af veginum og hafnaði á hliðinni í sjónum. Þegar lögreglan kom á staðinn var þegar komin þangað björgunarsveit, að sögn Gylfa Þórs Gíslasonar varðstjóra í lögreglunni á Ísafirði.

„Það var björgunarsveitin frá Súðavík sem var komin á vettvang á undan okkur og síðan vegfarendur sem höfðu komið fljótlega að.“
Hvað voru þetta margir vegfarendur og hvað hafði þeim tekist að gera á þessum tíma sem hafði liðið?
„Þetta voru fjórir aðilar sem voru á vettvangi og þeir voru búnir að ná öllum út úr bílnum.“

Lögreglan segir að fjórmenningarnir hafi unnið þrekvirki við erfiðar aðstæður. Strax var ljóst að slysið var alvarlegt og var samhæfingarmiðstöð almannavarna í Skógarhlíð virkjuð.

„Bæði er langt í þéttbýli, þar sem þetta var og tæknilega flókin björgun og þess vegna hefur allt verið ræst út, sem er náttúrlega það eina rétta í stöðunni,“ segir Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra.

Lögregla, sjúkra- og slökkvilið komu frá Ísafirði og björgunarsveitir á svæðinu, sem og tveir læknar, alls fimmtíu manns, að sögn Hlyns Snorrasonar yfirlögregluþjóns á Ísafirði. Þá voru tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar kallaðar út með tveimur læknum og köfurum. Önnur þyrlan flutti einn á bráðamóttökuna í Fossvogi en tvennt fór með hinni sem lenti á Reykjavíkurflugvelli. Þaðan voru þau flutt á Landspítalann við Hringbraut. Ekki hafa fengist frekari upplýsingar um líðan fólksins.

Við eðlilegar aðstæður hefði tekið um 40 til 50 mínútur að komast á slysstað frá Ísafirði, en í dag var mikil hálka og krapi á vegunum sem tafði viðbragðsaðila.

„Það tók okkur gífurlega langan tíma. Það var glerhálka, það tók okkur gífurlega langan tíma bara að komast á vettvang. Forgangsakstur sem vanalega er 140 var svona 90 til 100, glerhálka,“ segir Gylfi Þór Gíslason.

Yfirlögregluþjónninn á Ísafirði segir að símasamband sé stopult á þessum slóðum og viðbragðsaðilar hafi þurft að færa sig til að ná sambandi.

Fólkið kom með flugi frá Póllandi liðna nótt og var á leið heim til sín í sóttkví eftir fyrri sýnatöku á Keflavíkurflugvelli. Hún reyndist neikvæð en samkvæmt heimildum fréttastofu var smit í vélinni og því var ákveðið að setja þá sem voru í mestri nánd við hin slösuðu í sóttkví. Hlynur Snorrason segir að það séu átján manns. Fólkið fer í sýnatöku á morgun og verður framhaldið ákveðið þegar niðurstöður liggja fyrir.