Mynd: EPA-EFE - EPA

Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.
Þungvopnaður maður handtekinn í Washington
16.01.2021 - 21:28
Þungvopnaður maður var handtekinn við öryggishlið nærri þinghúsinu í Washington fyrr í dag. Maðurinn hefur verið nafngreindur, heitir Wesley Allen Beeler og er búsettur í Virginíu-ríki.
AFP-fréttastofan hefur eftir lögreglu að í fórum Beelers hafi fundist skammbyssa, mikið magn skotfæra, haglaskot og skothylki fyrir byssuna. Lögreglan stöðvaði hann þar sem hún taldi skilríki hans ekki veita honum aðgang að innsetningarathöfninni. Fjölmiðlar vestanhafs hafa eftir fjölskyldu Beelers að hann sé öryggisvörður hjá einkareknu fyrirtæki og hafi ekki haft neitt illt í huga.
Þúsundir þjóðvarðliða hafa verið kallaðar til varðgæslu í höfuðborginni og götur í miðborginni eru lokaðir almennri umferð með steinsteyptum vegatálmum. Neyðarástand hefur verið í gildi í borginni frá 11. janúar og gildir til 24. janúar.
Fréttin var uppfærð 17. janúar klukkan 00:20.