Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Skipverjum létt við dóm

16.01.2021 - 08:18
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Verkalýðsfélag Vestfirðinga segir að skipverjum á togaranum Júlíusi Geirmundssyni sé mjög létt við að máli vegna COVID-hópsmits um borð í togaranum í veiðiferð hafi lokið með dómi í Héraðsdómi Vestfjarða í vikunni. Óvissan hafi verið þeim þungbær.

Þetta kemur fram í færslu á vef stéttarfélagsins. Þar segir að með dóminum hafi allur vafi verið tekinn af um réttarstöðu þeirra skipverja sem staðið hafa í veikindum í veiðiferðinni og í kjölfar hennar. Þar er vísað til ábyrgðar útgerðar á ákvörðunum skipstjóra sem skaði valdist af.

Stéttarfélagið segir að heilsa flestra skipverja þokist til betri vegar en ekki allra þó. Að auki séu þeir sem enn glíma við veikindi nú í vissu um að þeir haldi launum til jafns við það sem þeir hefðu haft væru þeir vinnufærir og heilir heilsu. Þá segir Verkalýðsfélag Vestfjarða að skipverjar hafi sumir undrast að refsing skipstjórans sé ekki ólík refsingu fyrir samlokustuld úr verslun. Minna hafi þó verið gert úr þeirri þjáningu sem skipstjórinn hafi liðið vegna mistaka sinna í sjóferðinni.

„Allir sem að málinu koma gera sitt besta til að lágmarka þann skaða sem hlotist hefur, en ekki er hægt að líta framhjá því að hvorki er um slys né veikindi af eðlilegum orsökum að ræða,“ segir á vef stéttarfélagsins. „Teknar voru rangar ákvarðanir sem ollu skipverjum alvarlegum skaða. Samfélagslegur kostnaður af þessu er nú þegar orðinn gífurlegur sem og fjárhagsskaði útgerðar. Álitshnekkur fyrir svæðið í heild sinni verður ekki metinn til fjár.“