Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ferlega töff þættir sem örva bæði skynvíddir og rökvísi

Mynd: Netflix / Netflix

Ferlega töff þættir sem örva bæði skynvíddir og rökvísi

16.01.2021 - 09:33

Höfundar

Áhorfendum gefst tækifæri til að stökkva ofan í ofursvala kanínuholu, stútfulla af flóknum gestaþrautum og blóðsúthellingum í japönsku þáttunum Alice in Borderland, segir Katrín Guðmundsdóttir sjónvarpsrýnir.

Katrín Guðmundsdóttir skrifar:

Í sígildri skáldsögu Lewis Carroll frá árinu 1865 er sagt frá ævintýrum hinnar ungu og eirðarlausu Lísu sem eltir uppklædda kanínu ofan í holu í jörðinni. Holan leiðir hana niður í Undraland, þversagnakenndan fantasíuheim þar sem Lísa kynnist fjölmörgum furðuverum sem fá hana til að sjá lífið og tilveruna í nýju ljósi.

Nú rétt fyrir jól frumsýndi Netflix japanska þáttaröð með kunnuglegum titli; Alice in Borderland, sem byggist á vinsælli Manga-teiknimyndasögu eftir Haro Aso. Þættirnir segja á keimlíkan hátt frá Arisu, ungum iðjuleysingja sem spilar tölvuleiki allan liðlangan daginn, föður sínum og affarasælum bróður til mikillar mæðu. Arisu og félagar hans eru, eins og kannski mörg ungmenni nú til dags, ekki í sérlega sterkum tengslum við samfélagið sitt eða þær skyldur sem það leggur á herðar þeim. Sjálfir eru þeir meðvitaðir um tengslaleysið og árétta staðsetningu sína á jaðrinum þegar þeir skrópa saman í vinnuna einn góðan veðurdag til að detta í það.

Það ætti ekki að koma neinum á óvart sem þekkir til fyrirmyndarinnar að viðleitni vinanna til að flýja veruleikann raungerist og eins og hendi sé veifað hverfur allt fólkið í kringum þá. Hin lifandi og síiðandi höfuðborg Japans verður í einni svipan að dularfulla eyðilandinu Borderland, þar sem útvalið fólk fær að vinna sér inn tímabundinn búseturétt með því að taka þátt í alls kyns leikjum og flóknum þrautum.

Í fyrstu virðist fyrirkomulagið í Borderland falla vel í kramið hjá drengjunum. Ég meina, hver væri ekki til í að taka þátt í einhverjum leik tvisvar þrisvar í viku og njóta allsnægta þess á milli í staðinn fyrir að þræla sér út í einhverri leiðinlegri vinnu? Þegar ljóst verður hversu krefjandi leikirnir eru og að þátttakendur eru nauðbeygðir til að spila þá upp á líf og dauða snýst aðdráttaraflið hins vegar upp í andhverfu sína og við tekur leit að svörum. Hvað varð um allt fólkið? Hver stjórnar þessum stað? Og hver er tilgangurinn með honum?

Þættirnir varpa ljósi á hversu staðlaður og fráhrindandi hlutverkaleikur fullorðinna getur verið fyrir ungmenni á tímum internets og starfrænna samfélaga, þar sem hver sem er hefur ótakmarkað frelsi til að vera hvað sem hann langar til að vera. Í raunveruleikanum er persónuleiki okkar og einstaklingseðli að miklu leyti háð samfélagsgerðinni sem við fæðumst inn í. Við erum til að mynda mótuð af stjórnarfyrirkomulaginu í landinu okkar með tilheyrandi afstöðu þess í garð lýðræðis og jafnréttis, sem og stétt fjölskyldu okkar með öllum þeim félagslegu og efnahagslegu forréttindum eða takmörkunum sem henni fylgir. Hið nýja og frumstæða samfélag í Borderland hefur því ekki aðeins í för með sér breytt viðmið og gildi fyrir þá sem berjast fyrir búseturétti þar heldur einnig ný hlutverk og tiltölulega ómótað félagslegt stigveldi. Sem hljómar í senn útópískt og dystópískt, því á meðan sumir þrá ekkert heitar en að komast aftur heim til síns fyrra lífs gera aðrir þvert á móti hvað sem þeir geta til að koma sér kirfilega fyrir í hinum nýja og óútreiknanlega heimi. Sú staðreynd að enginn veit í raun og veru hvaða fortíð næsti maður á að baki hleður þættina ákveðinni sálfræðilegri spennu sem bætist ofan á hasarinn sem leikirnir sjálfir bera með sér.

Alice in Borderland eru æsispennandi og ferlega töff þættir sem örva bæði skynvíddir og rökvísi þess sem horfir á. Leikirnir sem þátttakendur þurfa að taka þátt í til að halda sér á lífi veita áhorfendum sjálfum tækifæri til að brjóta heilann, sem gerir það að verkum að áhorfið verður talsvert virkara en við hefðbundið sjónvarpsgláp. Æsingurinn fyrir framan skjáinn getur raunar orðið býsna mikill þegar það eina sem stendur í vegi fyrir að persónur tapi lífi sínu er þraut eða gáta sem áhorfendur eiga sjálfir möguleika á að leysa í sófanum.

Rammarnir eru grafískir og persónurnar litríkar. Tjáningin er jafnframt full af látbragði og hasarinn á það til að minna á loftfimleika. Ekkert er hversdagslegt í hinni óhugnanlegu staðleysu sem Borderland er, enda svosem ekki við öðru að búast ef litið er til upprunans. Myndasagan er nefnilega enginn vettvangur fyrir látleysi eða raunsæi þar sem eiginleikar miðilsins bjóða upp á svo miklu frjórri og fyrirferðameiri söguheima en önnur frásagnarform. Sagan hefði til dæmis aldrei notið sín jafn vel í hefðbundu ritverki vegna þess hve myndræn hún er og ör á köflum og að sama skapi er fremur ólíklegt að hún hefði verið kvikmynduð strax á sínum tíma vegna þess hve hár framleiðslukostnaðurinn var.

Kvikmyndir og sjónvarpsseríur sem byggjast á myndasögum eru jú dálítið sérstakar að þessu leyti. Þær eiga það til að vera mun dýrari en aðrar myndir þar sem sögheimarnir ögra tækninni sem kvikmyndalistin grundvallast á og stuðla um leið að framþróun hennar. Afurðin er mun áhrifameiri líkamleg upplifun sem nýtur sín best á stórum skjáum með mikilli upplausn og öflugu hljóðkerfi. Við þekkjum þetta hvað best af stórsmellum Marvel, sem eru alla jafna á meðal mest aðsóttu myndanna í kvikmyndahúsum á ári hverju. Ekki endilega vegna þess að við erum öll með ofurhetjur á heilanum heldur mögulega vegna þess að fólki finnst það fá mest virði fyrir aðgöngumiðann sinn þegar það kaupir sig inn á þessar myndir. Það er því engin tilviljun að kvikmyndaðar myndasögur verði bara fleiri og vinsælli eftir því sem bæði tíma og tækni fleytir fram og nú þegar bæði sjónvörp og hljómflutningstæki eru orðin það öflug að geta miðlað sambærilegri upplifun heim í stofu fyrir minni kostnað eru allar líkur á þær yfirtaki streymisveitur næst.  

Fyrir utan heimana tvo, aðdragandann að umskiptunum þeirra og kannski örfá líkindi með nokkrum persónum í þáttunum og sögu Carrolls er alveg óhætt að segja að Alice in Borderland sé sitt eigið ævintýri. Eða martröð. Mín upplifun af þáttunum var allavega eins og hoppa ofan í ofursvala kanínuholu, stútfulla af uppreisnargjörnum unglingum, flóknum gestaþrautum og blóðsúthellingum.

 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Og þá var slegist, reykt og slúðrað í höllinni

Sjónvarp

Hvað verður um greyið gaslýsandi ofbeldismanninn?

Sjónvarp

Sprungur myndast í hallarmúrnum í The Crown

Tónlist

Fislétt grín um alvarleg málefni