Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fátækt sýnileg, áþreifanleg og fer vaxandi

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Stærsti hópurinn sem leitar aðstoðar hjálparsamtaka er fólk sem framfleytir sér með fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og fólk á atvinnuleysis- eða örorkubótum. Æ fleira fólk af erlendum uppruna hefur ekki aðrar bjargir en að framfleyta sér og sínum með fjárhagsaðstoð félagsþjónustunnar.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir félagsmálaráðuneytið og Velferðarvaktina. Þar kemur einnig fram að ellilífeyrisþegnar og láglaunafólk leiti einnig til hjálparsamtaka en þó í minna mæli.

Nærri tvö af hverjum þremur þeirra sem nýta sér aðstoðina sögðust frekar vilja inneignarkort í matvöruverslunum en að fá úthlutað mat. Sömuleiðis virðast flest ánægð með þjónustuna en nefndu þó að þau hefðu þurft að bíða í biðröð utandyra hjá tveimur hjálparsamtökum.

Í viðtölum við félagsráðgjafa kemur fram að hugtakið „fátækt“ væri lýsandi en væri þó sjaldan notað, tengdist gamalli tíð og að pólítikin viðurkenndi ekki fátækt í samtímanum. Þó hefði komið fram í samtölum að fátækt væri sýnileg og áþreifanleg staðreynd sem færi vaxandi.

Í skýrslunni segir að almennt þurfi að útvíkka og bæta þau úrræði sem nýtast fátæku fólki, einkum með sérstökum úrræðum á tímum heimsfaraldursins. Þar segir einnig að endurmeta þurfi og útfæra úrræði fyrir fólk sem bíður örorkumats og styðja betur við fólk af erlendum uppruna.

Loks var bent á mikilvægi þess að bjóða upp á varanleg úrræði fyrir fólk með fjölþættan vanda, á borð við geðröskun og fíkniefnavanda. Þær Ásdís Aðalbjörg Arnalds, Guðný Gústafsdóttir og Steinunn Hrafnsdóttir eru höfundar skýrslunnar.