Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Brátt verði leghálsgreiningarfyrirkomulag viðunandi

Mynd: RÚV / RÚV
Sýni úr krabbameinsleit í leghálsi hafa beðið í rúma tvo mánuði eftir greiningu. Ráðherra segir að þetta verði komið í viðunandi horf innan tíðar. Fyrirkomulag sem verið sé að koma á laggirnar verði mjög gott.

Krabbameinsleit í leghálsi var um áramótin færð yfir til heilsugæslustöðva. Kvensjúkdómalæknar gagnrýna að í tvo mánuði hafi sýni úr leghálsskimun beðið greiningar. Nýja kerfið sé ekki komið í gagnið. Í bréfi til landlæknis og heilbrigðisráðherra segjast læknarnir telja að þetta sé mikil ógn við öryggi og heilsu kvenna.

„Ég veit að það eru sýni frá því í byrjun nóvember sem við höfum ekki fengið svör fyrir og við höfum ekki fengið svör hvenær þau verða skoðuð eða konurnar fái svör úr þeim,“ segir Aðalbjörg Björgvinsdóttir, formaður Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna. 

Ráðherra deilir ekki áhyggjunum með læknunum.

„Nei, ég held að þetta sé mjög gott fyrirkomulag sem við erum að koma á. Við erum að tryggja að heilsugæslan sinni þessu en kvensjúkdómalæknar geta gert það áfram líka. Fyrst og fremst erum við að færa þetta til heilsugæslunnar hér á höfuðborgarsvæðinu en heilsugæslan hefur séð um þetta út um land. Þannig að við erum að tryggja að þessi þjónusta sé enn nær konum. Í staðinn fyrir að hvert skipti kosti næstum fimm þúsund krónur þá kostar það fimm hundruð kall,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Hún telur ekki að bið eftir greiningu verði áfram vandamál.

„Samskiptin eru í gangi, segir mér forstjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, og ég treysti því að þetta verði komið í viðunandi horf innan tíðar,“ segir Svandís.

Telurðu að heilsugæslan hafi verið í stakk búin til að taka við þessu?

„Algjörlega,“ segir Svandís.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir